
Smith tók börn sín, 2, 4 og 8 ára, í gönguferð í októbermánuði upp hið afskekkta Big Cottonwood-fjall sem er skammt suðaustur af Salt Lake City.
Kalt er í Utah á þessum árstíma og mátti Smith vera ljóst, að sögn lögreglu, að börn hans væru ekki undirbúin fyrir þessa krefjandi göngu sem átti að taka nokkrar klukkustundir.
Þegar Smith og börnin skiluðu sér ekki til byggða á tilsettum tíma var tilkynnt um hvarf þeirra. Leitarhópar voru kallaðir út og fundu þeir Smith og börnin daginn eftir, nær dauða en lífi.
Smith var með þriggja stigs kalsár og tvö barnanna voru í lífshættulegu ástandi þegar þau fundust.
Annað þeirra, fjögurra ára drengur, var ekki með púls þegar viðbragðsaðilar komu að honum og byrjaði hjarta hans ekki að slá fyrr en 25 mínútum eftir að endurlífgunartilraunir hófust. Líkamshiti hans var kominn niður í 17 gráður þegar hann var fluttur á spítala.
Ástand drengsins er stöðugt en í fréttum bandarískra fjölmiðla kemur fram að hann muni aldrei ná sér að fullu.
Söfnun var hrundið af stað á vefnum GoFundMe skömmu eftir atvikið en hún hefur nú verið fjarlægð. Á vef söfnunarinnar kom fram að Smith hefði fórnað lífi sínu til að halda hita á börnunum, en að sögn lögreglu var það hann sem kom börnunum í þessar lífshættulegu aðstæður.
Smith og börnin lögðu af stað klukkan 9 að morgni og eftir 9 klukkustunda göngu komust þau að toppi fjallsins, sem er í um 3.000 metra hæð. Á leiðinni niður versnaði veðrið til muna og brá Smith á það ráð að leita skjóls uppi á fjallinu og vona það besta.
Smith var handtekinn á þriðjudag og sagði Sim Gill, saksóknari í Salt Lake County, á blaðamannafundi eftir handtökuna að Smith hafi ekki hlustað þó börn hans hefðu lýst áhyggjum sínum í ferðinni. Átta ára dóttir hans hafi hvatt hann til að snúa við skammt frá toppi fjallsins en hann svarað því til að „svona tækifæri kæmi ekki aftur”.
Smith hefur nú verið ákærður sem fyrr segir og gæti hann átt þungan fangelsisdóm yfir höfði sér.