

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga, hefur lýst yfir framboði fyrir hönd Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Guðmundur Ingi sækist eftir þriðja sætinu á lista flokksins í Reykjavík.
Guðmundur Ingi hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu um þetta:
„Ég býð mig fram í 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík í prófkjörið fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2026. Eftir áralanga baráttu fyrir réttindum þeirra sem standa höllum fæti vil ég leggja mitt af mörkum til að gera Reykjavík að borg þar sem enginn er skilinn eftir. Er uppalinn í Árbæ og Breiðholti, þar sem hjarta mitt slær. Hef mestan hluta ævinnar búið og starfað í ytri hverfum borgarinnar og þekki af eigin reynslu þá þætti sem þurfa umbætur.
Er formaður Afstöðu-réttindafélags, í trúnaðarráði Eflingar og sit í fulltrúaráði Gildis. Í fyrra starfi mínu á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar í málefnum heimilislausra og núverandi starfi hjá Afstöðu og Landspítalanum, hef ég séð hversu mikilvægt er að borgin bjóði upp á raunveruleg úrræði og manneskjulega þjónustu.
Hef lokið BA-prófi í félagsráðgjöf frá HÍ, umbreytingastjórnun frá Yale School of Medicine (Yale Program for Recovery and Community Health (PRCH)),og stunda nú meistaranám í opinberri stjórnsýslu hjá Háskóla Íslands og í forystu og stjórnun við Háskólann við Bifröst.
Bý með eiginmanni mínum Titu Ciprian Balea og hef verið sýnileg rödd fyrir hinsegin samfélagið sem ég er stoltur af enda partur af þeirri fjölskyldu. Þessi breiða reynsla úr grasrót, stjórnsýslu og hagsmunabaráttu, gerir mig að trúverðugum málsvara fólks sem á sjaldan fulltrúa við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar.
Hef verið virkur félagi í Samfylkingunni síðan 2015, þar sem ég hef tekið þátt í að móta stefnu flokksins í ýmsum málefnum og verið forystumaður í málefnavinnu. Sem núverandi formaður Rósarinnar, landsfélags jafnaðarmanna og máttarstólpa í Samfylkingunni, hef ég lagt mikla áherslu á jafnaðarstefnu, mikilvægi sáttarstjórnmála og að allir séu velkomnir í flokkinn okkar og að við eigum öll samleið.
Hef ákveðið að stíga inn í framlínu stjórnmála því ég trúi á Samfylkinguna sem afl til breytinga. Með margra ára reynslu af grasrótarstarfi, fundum með stjórnmálafólki úr öllum áttum, og sem talsmaður þeirra sem búa við jaðarsetningu, tel ég að flokkurinn hafi tækifæri til að bæta verulega á stöðu minnihlutahópa, láglaunafólks og þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu. Ég vil vera þessi tenging við þá hópa, og hjálpa Samfylkingunni að móta stefnu sem nær raunverulega til okkar allra. Því við erum stór hópur. Þegar horft er til framtíðar sé ég flokk sem er opinn, bjartsýnn og laus við fordóma. Við þurfum að tryggja að allir fái jöfn tækifæri, þak yfir höfuðið og réttláta þjónustu, líka þeir sem hafa áður verið sniðgengnir. Ég trúi því að Samfylkingin sé réttur vettvangur til þess að skapa þessa breytingu.
Ég býð mig fram til þess að verða fulltrúi þessara hópa á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2026 og óska eftir stuðningi ykkar til þess að gera það að veruleika. Ég hlakka til að vinna með ykkur að sameiginlegri baráttu okkar. Mínar áherslur og málefni þekkja flestir en hægt er að lesa allt um það á heimasíðunni minni www.gudmunduringi.is