
Fjölmiðlamaðurinn Anderson Cooper táraðist í viðtali sem hann stýrði fyrir fréttaskýringaþáttinn 60 Mínútur. Þar var verið að fjalla um heimildarmynd sem bráðum kemur út á Netflix og kallast Öll tómu herbergin (e. All the Empty Rooms) þar sem fjölmiðlamaðurinn Steve Hartman ásamt ljósmyndara heimsækir fjölskyldur átta barna sem létu lífið í skotárásum í skólum þeirra.
Foreldrar barnanna hafa ekki hreyft við herbergjunum. Þau eru frosin í tíma og bíða barna sem aldrei munu koma heim úr skólanum. Cooper átti erfitt með að halda aftur af tárunum þegar hann fjallaði um þetta. Hann sagði þetta sláandi áminningu um eðli þessara skotárása. Þjóðin les fréttirnar og fólk er slegið en getur svo haldið lífinu áfram. Annað eigi við um fjölskyldur barnanna.
„Þessar fjölskyldur komast aldrei yfir þetta,“ sagði Cooper klökkur. Steve Hartmann útskýrði að fjölskyldur þessara tilteknu barna sem opnuðu heimili sín fyrir honum við gerð heimildarmyndarinnar hafi ákveðið að gera slíkt til að minna þjóðina á börnin þeirra, til að benda á hversu fljótt þjóðin gleymir þessum voðaverkum.
Rödd Coopers brast þegar hann reyndi að útskýra hvað gleymskan þýðir fyrir þessar fjölskyldur. „Ég held það sé gífurleg byrði fyrir þessa foreldra að þurfa að varðveita minninguna, að það séu þau ein sem muna – afsakið mig.“
“They can’t surrender the rooms, because you surrender the rooms, and that’s just another piece of their kid that’s gone,” explains Steve Hartman, who has been documenting the rooms of children murdered in school shootings. Many have been untouched for years.… pic.twitter.com/42PBnSHMmE
— 60 Minutes (@60Minutes) November 24, 2025