
Hann greip alltaf fram í fyrir konunni sinni. Það var nokkurn veginn sama hvað var til umræðu hún fékk aldrei að klára innlegg sitt í samræðurnar. „Þetta var nú ekki alveg svona, Lóa mín,“ var viðkvæðið ef hún var að segja sögu af viðburði úr lífi þeirra. „Þetta er ekki rétt, Lóa mín,“ ef hún sagði skoðun sína á því sem hæst var á baugi hverju sinni. Hann var meistari hrútskýringanna, hafði beinlínis fullkomnað það listform.
Allar konur þekkja hrútskýringar og hve ótrúlega færir margir karlmenn eru í þeim. Sumir virðast meira að segja vera hrútskýrendur af hugsjón. En þetta frábæra orð er þýðing á enska orðinu: mansplaining og svo rækilega hefur það fest sig í sessi um allan heim að það er ótrúlegt að hugsa til þess að það varð til í hugskoti einstaklega greindrar konu árið 2008.
Í partíi í Aspen í Colorado sat sagnfræðingurinn og rithöfundurinn Rebecca Solnit til borðs með síðmiðaldra karli. Hann sneri sér að henni og spurði hvaða verkefnum hún hefði verið að vinna að undanfarið. Rebecca svaraði að hún hefði nýlega sent frá sér bók um ljósmyndarann Eadweard Muybridge. Karlinn lyftist allur og spurði hana hvort hún þekkti nýlega bók um einmitt þann mikla frumkvöðul ljósmyndalistarinnar sem komið hefði út þetta sama ár. Áður en hún náði að svara hóf hann að rekja fyrir henni hvers vegna bókin skipti máli og hvað hún hefði verið upplýsandi um þátt þessa manns í þróun ljósmyndunar í Bandaríkjunum.
Vinur Rebeccu reyndi að grípa inn í og sagði: „Þetta er bókin hennar.“ Karlinn hristi öll slík frammíköll af sér og hélt áfram að tala. Aftur reyndi vinurinn að stöðva málæðið árangurslaust. Karlinn færðist bara í aukana og hélt áfram að rekja fyrir þeim upplýsingar og kenningar úr bókinni. Það var ekki fyrr en eftir tuttugu mínútur að vini Rebeccu tókst loks að gera manninum skiljanlegt að hann væri að tala við höfund bókarinnar sem hann var svo sérfróður um.
Í stað þess að biðjast afsökunar eða þakka höfundinum fyrir frábæra bók sem hefði skipt hann svo miklu máli skipti karlinn einfaldlega um umræðuefni og lét ekki á sér finna að hann skammaðist sín neitt. En Rebecca fór heim og skrifaði bloggfærslu sem bar titilinn, Karlar útskýra hluti fyrir mér, og í henni notaði hún í fyrsta sinn orðið „mansplaining“. Rithöfundurinn Hallgrímur Helgason sneri orðinu svo á íslensku á þennan snilldarlega hátt, hrútskýring.
Og það varð fleygt á svipstundu. Ekkert undarlegt að það fengi vængi. Allar konur þekktu fyrirbærið, lifðu með því sumar hverjar en aðrar kynntust því í skóla, vinnu eða þegar þær þurftu með bílinn á verkstæði, barnið til læknis, biðja um tiltekna steik í kjötbúðinni og fleira og fleira. Karlmenn alls staðar virtust þess fullvissir að þeir vissu meira um flest málefni en konurnar í kringum þá, jafnvel þótt við blasti að þær væru mun hæfari en þeir, á öllum sviðum. Þeim fannst líka skylda sín að uppfræða hinar fáfróðu konur og ausa úr ríkulegum viskubrunni sínum hvort sem beðið var um það eða ekki.
Konur sögðu skoðanir sínar á fundum, viðruðu hugmyndir, lögðu til skynsamlegar leiðir að tilteknum markmiðum en það var eins og enginn heyrði. Þær hefðu allt eins getað sungið: „Trallalallalallala.“ Kannski hefði verið eftir því tekið vegna þess hve óvenjulegt það var. Kannski ekki undarlegt að konur fögnuðu því að hafa loks fengið orð yfir illþolandi fyrirbæri svona rétt eins og þegar loks fæst krem sem slær á kláðann eftir bit lúsmýs.
En Rebecca Solnit gerði meira en að búa til frábært orð yfir leiðinlegt fyrirbæri. Hún útskýrði hvers vegna karlar hegðuðu sér svona. Þeir höfðu sjálfir skapað sín viðmið og töldu þar með að þar færi óskoraður sannleikur og ekkert annað gæti átt við. Mannkynssagan hefur hingað til að mestu snúist um karla, gerðir þeirra, hugmyndir og uppfinningar. Konur týnast í sögunni líkt og fram kom í frábærri sýningu Hunds í óskilum, Konur í Íslandssögunni.
Hið sama gildir um flest annað. Gömlu meistararnir í málaralist eru allt karlar. Það er aðeins nýlega að fólk virðist hafa uppgötvað að konur hafa stundað list frá örófi alda og snilligáfa þeirra engu minni en karlanna. Konur hafa skrifað frá því letur varð til og bækur þeirra iðulega ekki fengið sanngjarna dóma nema þær taki sér skáldanöfn, karlanöfn. Þess utan eru hugðarefni kvenna og hugmyndir svo miklu lítilvægari en karla. Þær eru bara að skrifa um ástina, fjölskyldutengsl, daglegt líf og örlög einhverra kerlinga. Heimspeki er líka karlafag eða hvað? Voru virkilega einhverjar konur sem hugsuðu á tímum Sókratesar og Aristótelesar? Hvað með Appasíu og Hipparkíu? Höfðu þær kannski ekki sömu yfirsýn og karlarnir og gátu því ekki tjáð sig um mannlega tilveru?
Og Rebecca Solnit kastaði fram áhugaverðri spurningu: Hvað ef við hættum að samþykkja þetta? Þar með breytist allt. Þessi spurning opnar á ótal aðrar leiðir til að skoða heiminn, til að umgangast, umbera og tala við hvert annað. Það er hægt að breyta hugarfari og þar með heiminum. Skömmu eftir bloggfærsluna gaf Rebecca út safn ritgerða, The Mother of All Questions. Í henni skoðar hún algengar spurningar sem stöðugt dynja á konum og bendir á að spurningarnar eru beinlínis sniðnar að því að viðhalda þeirri ímynd af kvenhlutverkinu sem samfélagið vill þröngva upp á konur og það skiptir ekki máli hverju þær svara, á svörin er aldrei hlustað af einhverri alvöru eða athygli.
Margir karlar trúa því að ef konur segja ekkert séu þær sammála þeim, sáttar og ánægðar með hlutskipti sitt. Þeim dettur hreinlega ekki í hug að þögnin sé leið til að reyna að komast af í aðstæðum sem eru óþolandi. Ef þær hins vegar ákveða að standa með sjálfum sér, segja það sem þær vilja segja og reyna að hreyfa við viðteknum venjum eru þær taugaveiklaðar, að byrja á túr, skapvondar, klikkaðar nú eða það versta af öllu öfgafemínistar.
Í bók Rebeccu er farið málefnalega og af einstakri rökfestu yfir þetta allt og krufið hvernig karlar nota tungumálið til að gera lítið úr konum, tala yfir þær og slaufa þeim. Hún flettir ofan af aldagömlum fordómum og blindu af hálfu karla gagnvart konum. En hún bendir á að engin kerfi eru svo niðurnjörvuð að ekki sé hægt að hreyfa við þeim og allt er hægt brjóta niður og byggja upp að nýju. Hún færði konum líka nýtt vopn í hendur, orð til að þagga niður í hrútskýrendum þessa heims.
Steingerður Steinarsdóttir er ritstjóri Lifðu núna.