

Í viðtali í hlaðvarpsþættinum The Life of Bryony, sem Daily Mail heldur úti, lýsir Mannings athugasemdum sem hún fékk frá fólki sem virtist ekki alveg átta sig á þeim harmi sem hún hafði gengið í gegnum.
Sonur hennar, George, fékk flogakast á heimili fjölskyldunnar og lést hann á sjúkrahúsi stuttu síðar. Eiginmaður hennar, Paul, var þjakaður af sorg eftir andlát drengsins og svipti hann sig lífi fimm dögum síðar.
Rhian, sem þarna stóð uppi ein með tvö börn, stofnaði góðgerðasamtökin 2wish í kjölfarið sem veita aðstandendum aðstoð strax eftir skyndileg andlát barna og ungmenna.
„Maður þarf dálítið dökkan húmor þegar kemur að sumu, sérstaklega því sem fólk segir við mann,“ sagði Rhian við dálkahöfundinn Bryony Gordon.
„Ég man þegar ég fór aftur til vinnu og einhver sagði við mig: „Vá! Þú hefur lést svo mikið! Hvernig fórstu að þessu?”
Þá hafi einhver sagt að hann vissi hvað hún væri að ganga í gegnum, því viðkomandi hefði misst hundinn sinn og það hafi verið afar þungbært.
„Jafnvel þótt þú hefðir misst eigið barn ættirðu aldrei að segja: „Ég veit hvernig þér líður,“ því þú gerir það ekki,” segir hún og bætir við að hún hafi einnig fengið að heyra að hún sé heppin því hún eigi önnur börn. Þá nefnir hún að það fari í hana þegar einhver segir að hún sé fyrirmynd eða hugrökk.
„Ég hef enga aðra leið en að halda áfram. Ég er ekki hugrökk, í raun er ég bara þrjósk. Ég verð að halda áfram,” segir hún en nefnir þó að allir séu ólíkir og ekki sé til nein ein uppskrift af því að fást við sorgina.
„Það sem særir mig þarf ekki að særa einhvern annan, en þetta snýst um að hugsa aðeins áður en maður talar.“