fbpx
Miðvikudagur 12.nóvember 2025
EyjanFastir pennar

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sleikipinnapólitík

Eyjan
Miðvikudaginn 12. nóvember 2025 06:00

Mynd/Grok

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir kosningar mæta frambjóðendur gjarnan til leiks með sleikipinna í öllum regnbogans litum. Skyndilega er hægt að boða útgjöld í flesta málaflokka og ókeypis þjónustu hér og þar. Sannkölluð óðaverðbólga á gylliboðum. Svona hefur þetta líklega alltaf verið og einskorðast aldeilis ekki við íslensk stjórnmál. Skuggahliðin er sú að þegar í ljós kemur að það tefst að gefa sleikipinnana, eða þegar sleikjóarnir duga ekki öllum, súrnar í samfélaginu og tortryggnin í eykst. Slíkt grefur undan lýðræðinu og tiltrú fólks á stjórnmálunum.

Reynslan úr Norðvesturkjördæmi

Ég hef fundið þetta mjög sterkt á mínum stutta ferli sem þingmaður í Norðvesturkjördæmi. Þar hefur sleikipinnapólítik verið stunduð af krafti um árabil. Rétt fyrir kosningar mætir stjórnmálafólkið knáa með uppbrettar ermar og loforð um samgöngubætur, fjárfestingu í orkuinnviðum, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, jöfnun á flutningskostnaði raforku, bætta byggðastefnu og svo lengi mætti telja.

En svo komu ekki sleikjóarnir. Og niðurstaðan sem blasir við í kjördæminu er gífurlegur skortur á grundvallarinnviðum eins og stöðugri raforku, viðunandi vegasamgöngum og fjarskiptainnviðum. Afleiðingin er alvarleg vegna þess að ákveðin svæði landsins hafa einfaldlega orðið undir. Þess vegna er ekkert skrýtið að fólkið sem býr þar trúi því ekki og sé tortryggið þegar ný ríkisstjórn segist ætla að fjárfesta í innviðum, að leysa orkuhnútinn og tryggja byggðafestu. Úlfur, úlfur og allt það.

Þefvís á kjaftæði

Fundur Sjálfstæðismanna um helgina var áhugaverður. Hann virtist fremur boðaður til þess að fylla sal og klappa hvert fyrir öðru en að boða nýja stefnu og skýra sýn. Helsti fréttapunktur miðlanna var að flokkurinn teldi óþarfi að breyta nokkru og ætlaði sér að líta til fortíðar. Jú, og svo var farið í að skerpa aðeins fálkann og dekkja bláa litinn, enda brýnt mál, eflaust.

Það sem ég hjó eftir er að formaður flokksins, setti upp afar einfalda mynd þar sem flokkurinn hennar var fórnarlamb þess að fólk teldi að þau bæru einhverja ábyrgð á núverandi stöðu í menntakerfinu, samgöngumálum og efnahagsmálum svo dæmi séu tekin. Ræðan var löng og yfirgripsmikil en var í senn eitt stórt aflátsbréf þar sem flokkurinn ætlar greinilega ekki að kannast neitt við eigin fortíð. Á sama tíma og hann boðar þær breytingar að hann ætli að horfa meira til fortíðar. Ég veit, þetta er dulítíð brogað.

Heiðarlegra væri að viðurkenna að flokkurinn beri auðvitað mikla ábyrgð á íslenskri samfélagsgerð. Eftir nánast sleitulausa setu í ríkisstjórn landsins frá fullveldi. Fólk er ekki fífl og almenningur er þefvís á kjaftæði. Sleikipinnar fyrri ríkisstjórnar urðu aflitaðir og hárugir. Þjóðin hafði ekki lyst á þeim lengur og henti þeim í ruslið.

Sleikipinnar eða appelsína

Ríkisstjórnin sem tók við keflinu gerir sér grein fyrir þessari ábyrgð, mikilvægi þess að koma heiðarlega fram, leggja fram raunhæfar lausnir á orðið og sleppa flugeldasýningunum. Stærsta verkefnið er að ná vöxtunum og verðbólgunni niður, sem bíta hvert einasta heimili og fyrirtæki landsins á hverjum degi. Það þarf aga og festu og þá þarf líka að taka leiðinlegar og óvinsælar ákvarðanir. Hagræða og forgangsraða. Og það er nákvæmlega það sem ríkisstjórnin er að gera. Með Daða Má Kristófersson með styrka hönd á stýri. Þannig er hægt að byggja upp nauðsynlega innviði og þjónustu.

Ég vona að tími raunsærra stjórnmála sé að renna upp. Þar sem stjórnmálamenn koma heiðarlega fram, leggja fram raunhæfar lausnir og viðurkenna líka að það er ekki hægt að gera allt fyrir alla samtímis. Ég hló að því árið 2021 þegar flokkar kepptust við að lofa útgjöldum sem mörg hver slöguðu upp í hundruð milljarða. Þá stóð minn flokkur, Viðreisn, keikur og sagðist vera búinn að reikna það út að það væri mögulegt svigrúm fyrir 11 milljarða útgjaldaaukningu. Það fékk ekki fyrirsagnir og atkvæðin hrúguðust kannski ekki inn.

En kannski er kominn tími til að hætta að bjóða fólki innantóma sleikjóa og bjóða upp á kannski heilnæmari kost. Eins og kannski heiðarlega appelsínu. Það kaupir kannski ekki jafn mörg atkvæði, hið minnsta til skemmri tíma. En það skilur ekki eftir sig sykurskán á tönn og grefur ekki eins undan trausti í garð þess sem bauð þér bitann. Svo er appelsínan mun næringarríkari en sleikjó og langtímaáhrifin því betri. Hún er líka stútfull af C-vítamínum. Sem er ekki vera.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Hver er merkasti forsætisráðherra aldarinnar?

Björn Jón skrifar: Hver er merkasti forsætisráðherra aldarinnar?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Kvennafrídagurinn breytti öllu

Sigmundur Ernir skrifar: Kvennafrídagurinn breytti öllu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Þegar Hailey Bieber seldi mér sjálfa mig

Nína Richter skrifar: Þegar Hailey Bieber seldi mér sjálfa mig
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þrjár leiðir til að gæta íslenskra hagsmuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þrjár leiðir til að gæta íslenskra hagsmuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Við svona kannski höfum ákveðið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Við svona kannski höfum ákveðið
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Hið íslenska hundaflaut

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Hið íslenska hundaflaut
EyjanFastir pennar
11.10.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Næturgestur í Alþingishúsinu

Óttar Guðmundsson skrifar: Næturgestur í Alþingishúsinu
EyjanFastir pennar
10.10.2025

Svarthöfði skrifar: Þeir sem flæmdu Laxness úr skólunum

Svarthöfði skrifar: Þeir sem flæmdu Laxness úr skólunum