fbpx
Fimmtudagur 30.október 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Nýjar ógnir og nýtt RÚV

Eyjan
Fimmtudaginn 30. október 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Er Ísland í stakk búið til að verjast drónaárásum? Þannig var spurt á dögunum þegar erlendum flugvöllum var lokað vegna drónaárása.

Umræðan var gagnleg fyrir þá sök að hún varpaði ljósi á nýjar áður óþekktar aðstæður, sem við stöndum andspænis, og kalla á nýja hugsun og nýjar lausnir.

Drónar eru hluti af því, sem menn kalla í dag fjölþáttaógnir. Svo virðist sem viðbrögð hafi verið undirbúin hér að svo miklu leyti sem tök eru á. En ljóst er að drónaógnina þarf að taka alvarlega, þótt hún sé ekki yfirvofandi.

Yfirvofandi ógn

En það er önnur nútíma fjölþáttaógn, sem líka þarf að taka alvarlega. Og það sem meira er: Hún er yfirvofandi.

Þetta er starfsemi á vegum erlendra ríkja, sem nýta möguleika nútíma upplýsingamiðlunar til að beita upplýsingaóreiðu í þeim tilgangi að hafa áhrif á lýðræðislegar kosningar í öðrum löndum.

Fullveldi Íslands og sjálfstæði landsmanna til að taka eigin ákvarðanir stafar ógn af þessari starfsemi.

Þjóðaratkvæðagreiðslan

Reynsla annarra þjóða sýnir að gera verður ráð fyrir að reynt verði með slíkum meðulum að hafa áhrif á þjóðaratkvæðagreiðsluna um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið, sem fram fer innan tveggja ára.

Rússar hafa um langan tíma beitt brögðum af þessu tagi gegn stórum þjóðum sem smáum í Evrópu. Lítill vafi þykir leika á því að þeir höfðu umtalsverð áhrif í Brexit-kosningunum. Kína ætti líka að vera undir smásjá.

Bandaríkin hafa svo með beinni hætti hlutast til um innanríkismál Evrópuþjóða í þeim tilgangi að grafa undan Evrópusambandinu, stuðla að sundrungu Evrópuþjóða og efla hægri popúlistaflokka. Samþætting stjórnmála og hátæknifyrirtækja í Bandaríkjunum eykur þessa hættu.

Stjórnvöld verða að taka þessa yfirvofandi ógn alvarlega og bregðast við eftir því sem kostur er. Lýðræðið er í húfi.

Veik fjölmiðlun

Þetta beinir athyglinni að íslenskri fjölmiðlun. Hún hefur takmarkaða burði til þess að vera mótvægi gegn þeim ógnum, sem við blasa á þessu sviði.

Flestar ríkisstjórnir á þessari öld hafa bögglast með mismunandi hugmyndir um ríkisútvarpið og nú á síðustu árum hvernig styrkja eigi einkarekna fjölmiðla.

En nú er kannski rétti tíminn til þess að hugsa eitthvað nýtt, eitthvað róttækt og eitthvað stórt.

Stuðningur við einkarekna fjölmiðla getur skipt máli við ríkjandi aðstæður. Það er þó vandasamt viðfangsefni, sem kallar á skýrar gagnsæisreglur.

Svo gæti verið hyggilegt að hugsa upp á nýtt hlutverk fyrir samfélagsstofnun, eins og RÚV hefur verið í hart nær öld, og út fyrir gamla útvarpshugtakið. Nútíminn kallar á annað umfang.

Ný hugsun

Sennilega hefur aldrei verið meiri þörf á öflugri íslenskri menningarmiðlun, kraftmikilli upplýsingamiðlun og þróttugum umræðuvettvangi.

Einkareknu fjölmiðlarnir gegna þar afar mikilvægu hlutverki. Nýjar ógnir sýna jafnframt að áfram er ærin þörf á samfélagslegri menningar- og fjölmiðlunarstofnun.

Markaðstenging RÚV truflar bæði hlutverk hins opinbera á þessu sviði og samkeppnina við einkarekna fjölmiðla. Hana þarf að afnema.

Ný samfélagsstofnun þarf til að mynda verulega öfluga ritstjórn með sérfræðingum á mörgum sviðum til þess að miðla traustum upplýsingum og tryggja djúpa umræðu eftir öllum leiðum nútíma tækni. Þegar hugsað er upp á nýtt þarf augljóslega ýmislegt að víkja fyrir nýju og breyttu hlutverki.

Smáskammtabreytingar eru ekki svarið heldur alveg ný hugsun. Alltént er þetta eitthvað, sem má ræða og jafnvel karpa um.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Kormákseðli þjóðskáldsins

Óttar Guðmundsson skrifar: Kormákseðli þjóðskáldsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Hildur mætir ólesin í munnlegt próf

Svarthöfði skrifar: Hildur mætir ólesin í munnlegt próf
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Milljarðafyrirtækin barma sér vegna fjölmiðlastyrks sem ætti ekki að skipta þau neinu máli

Svarthöfði skrifar: Milljarðafyrirtækin barma sér vegna fjölmiðlastyrks sem ætti ekki að skipta þau neinu máli
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja

Björn Jón skrifar: Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Thomas Möller skrifar: Hvað ef ESB væri ekki til?

Thomas Möller skrifar: Hvað ef ESB væri ekki til?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Tilvistarkreppa Sjálfstæðismanna – hver er munurinn á Reykjavík og Kópavogi?

Svarthöfði skrifar: Tilvistarkreppa Sjálfstæðismanna – hver er munurinn á Reykjavík og Kópavogi?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Skerðu niður sem lengst frá sjálfum þér

Sigmundur Ernir skrifar: Skerðu niður sem lengst frá sjálfum þér
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Verðfall í búð reynslunnar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Verðfall í búð reynslunnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Svarthöfði skrifar: Dans og leikur í Marbella – kennitöluflakk til Möltu?

Svarthöfði skrifar: Dans og leikur í Marbella – kennitöluflakk til Möltu?