
Lögregluyfirvöld í Fort Worth í Texas birtu myndband á Facebook-síðu sinni sem sýnir lögreglumenn bjarga lífi eins árs stúlku sem festist undir bifreið eftir umferðarslys á dögunum.
Stúlkan var í bíl með móður sinni þegar bifreiðin valt og endaði utan vegar. Bæði móðir og dóttir köstuðust út úr bílnum og festist litla stúlkan sem fyrr segir undir bifreiðinni.
Lögreglumennirnir sem mættu fyrstir á vettvang, R. Nichols og E. Bounds, kölluðu eftir aðstoð annarra vegfarenda við að ýta bifreiðinni ofan af stúlkunni og kom fljótlega í ljós að stúlkan andaði ekki.
Þeir hófust strax handa við endurlífgun og innan skamms tíma tók stúlkan við sér og byrjaði að gráta.
Í yfirlýsingu frá lögreglunni í Fort Worth eru þeim Nichols og Bounds færðar þakkir fyrir skjót viðbrögð og hugrekki í erfiðum aðstæðum. Þá er þeim vegfarendum sem komu að aðgerðinni einnig þakkað fyrir.
Stúlkan var flutt á slysadeild ásamt móður sinni en búist er við því að báðar nái sér að fullu.