fbpx
Fimmtudagur 23.október 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Leiðtogar fylkinga Sjálfstæðisflokksins yfirbjóða hvor annan í stóryrðum vegna bensínlóðamála

Eyjan
Fimmtudaginn 23. október 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vaxandi örvæntingar gætir innan Sjálfstæðisflokksins vegna borgarstjórnarkosninganna sem fram fara eftir rúmt hálft ár. Talsmenn flokksins i borginni grípa hvert hálmstrá sem býðst og reyna að bæta stöðu sína með órökstuddum stóryrðum og beinlínis dónaskap sem kjósendur sjá í gegnum. Meginvandi Sjálfstæðisflokksins er sá að vinsældir ríkisstjórnarinnar haldast en flokkurinn nær engri viðspyrnu hvarvetna á landinu. Ný könnun Maskínu sem birt var í vikunni sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn er kominn niður í 15,9 prósenta fylgi, heldur minna en Viðreisn sem mældist með 16,1 prósent, en Samfylkingin er sem fyrr langstærsti flokkurinn með 29 prósenta fylgi. Miðflokkurinn er jafnvel farinn að narta í hælana á Sjálfstæðisflokknum og tekur greinilega af honum fylgi jafnt og þétt.

Þetta ástand á landsvísu gerir vonir flokksins um að rétt hlut sinn í höfuðborginni sífellt minni og fjarlægari.

Orðið á götunni er að upphrópanir fulltrúa flokksins í borgarstjórn vegna lóðaviðskipta við öll olíufélögin séu dæmi um örvæntingu þeirra. Allt sem Hildur Björnsdóttir og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, sem skipuðu tvö efstu sæti á lista flokksins í síðustu kosningum, hafa sagt um þessi lóðaviðskipti einkennist af örvæntingu þeirra. Í sínum málflutningi víkja þær aldrei að kjarna þessa máls. Einungis birtast upphrópanir um spillingu, fúsk og vilja borgaryfirvalda til að hygla olíufélögunum. Hjá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn hefur komið fram nagandi ótti um að viðskiptin gætu orðið heppileg fyrir olíufélögin og þau gætu jafnvel hagnast á þeim í einhverjum tilvikum. Einhvern tímann hefði það þótt saga til næsta bæjar að Sjálfstæðismenn hötuðust við það að fyrirtæki geti grætt peninga. Sú var tíð að það voru einkum kommúnistar sem óttuðust að einhver gæti hagnast!

Samningar Reykjavíkurborgar og sveitarfélaganna í nágrenni höfuðborgarinnar við olíufélögin hafa tekið langan tíma og tekið mið af því að sveitarfélögin urðu að gæta þess eftir föngum að mismuna ekki einstökum olíufélögum sem heyja stöðuga samkeppni sem meðal annars byggist á heppilegri staðsetningu þjónustustöðva þeirra. Ef eitt olíufélag lokar stórri stöð án þess að keppinautarnir aðhafist þá er viðbúið að mikilvæg viðskipti tapist. Einnig hefur Samkeppniseftirlitið haft auga á þessari samningagerð og sveitarfélögin hafa þurft að vanda alla framvindu málsins til að framkvæmdin stæðist allar kröfur.

Hagsmunir sveitarfélaganna eru augljósir af því að stórum þjónustustöðvum olíufélaganna fækki og í stað þeirra komi meira af sjálfsafgreiðslustöðvum á eldsneyti og rafmagni til að þjóna vaxandi fjölda rafökutækja. Verið er að færa þessi viðskipti inn í nýja tíma og mæta kröfum nútímans og framtíðarinnar. Stórar þjónustustöðvar olíufélaganna tilheyra gömlum tíma. Það virðast fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ekki skilja eða vilja ekki skilja.

Til þess að lokun stórra þjónustustöðva olíufélaganna gæti farið fram án þess að félögin bæru skaða af þurfti að semja við þau um heimildir til að breyta lóðum í byggingarland þannig að olíufélögin fengju ávinning á móti þeim mikla kostnaði sem flutningur viðskiptanna og uppsetning minni stöðva hefði í för með sér. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú hrópað um það að olíufélögin gætu grætt á sölu lóðanna sem virðist vera fulltrúum hans mikill þyrnir í augum. Bent er á að meintur hagnaður færi þá til að mæta kostnaði við flutninga og uppsetningu sjálfvirkra stöðva fyrir rafmagn og jarðefnaeldsneyti. Hér eru á ferðinni umhverfisvænar aðgerðir. Þá er ótalinn sá kostnaður sem fylgir því að hreinsa og skipta um jarðveg á lóðum sem hýst hafa mengandi bensín- og smurstöðvar áratugum saman.

Orðið á götunni er að það sé víða til mikilla bóta að losna við gamaldags bensínstöðvar út úr grónum íbúðahverfum með þeirri mengun og ónæði sem þessari starfsemi getur fylgt ef staðsetningin er inni í miðri íbúðabyggð eins og mörg dæmi eru um á höfuðborgarsvæðinu.

Hafa verður í huga að samningar olíufélaganna við borgina og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið langan tíma einfaldlega vegna þess að verkefnið er stórt og margflókið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki áttað sig á kjarna málsins en fest sig í aukaatriðum eins og meðal annars kemur fram í þeirri skýrslu sem Borgarendurskoðandi lagði nýlega fram. Þar er fjallað um fjölda smáatriða en minna gert með að benda á það mikla hagræði sem felst í átaki sveitarfélaganna við að koma þessari gamaldags og oft mengandi starfsemi út úr íbúðarhverfum. Þegar rykið sest munu íbúar sveitarfélaganna fagna þessu átaki.

Hildur og Ragnhildur Alda fara hvor fyrir sínum armi innan borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins sem mun vera þríklofinn. Þær stöllur öttu kappi fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar um fyrsta sæti listans og leiðtogasæti minnihlutans. Hildur vann með talsverðum yfirburðum. Ragnhildur Alda var studd af hulduher Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og ætla má að hún hugsi sér nú til hreyfings og sækist að nýju eftir að leiða lista Sjálfstæðisflokksins og verða leiðtogi minnihlutans í borginni.

Orðið á götunni er að ráða megi það í langri og ruglingslegri grein sem hún birti í Morgunblaðinu með upphrópunum um spillingu og einnig áhyggjur þessa fulltrúa Sjálfstæðisflokksins af því að einhver kynni að hagnast. Ragnhildur talar um „einstrengingslega áherslu á þéttingu byggðar“ af hálfu núverandi meirihluta en getur þess ekki að hvergi hefur byggð í borginni verið þétt eins mikið og á lóð Sjálfstæðisflokksins við Valhöll. Borgarfulltrúinn kannast samt örugglega vel við það. Hún talar ítrekað um spillingu án þess að útskýra það á nokkurn hátt. Hvað er hún að gefa til kynna? Er hún að halda því fram að borgarfulltrúar eða trúnaðarmenn borgarinnar hafi haft persónulegan ávinning af því að vinna að þessu flókna og víðtæka verkefni? Upp á þetta getur hún ekki boðið. Svona framkoma er ekki sæmandi – jafnvel þó að það styttist í kosningar og örvænting Sjálfstæðismanna aukist.

Orðið á götunni er að Ragnhildur Alda hitti óvart sinn eigin flokk beint í hjartastað þegar hún varar við því að „sami flokkur haldi völdum árum saman og verklag, tengslanet og venjur verða að sjálfstæðu valdakerfi.“ Sú var einmitt raunin þegar Sjálfstæðisflokkurinn stýrði borginni samfleytt áratugum saman. Og stundum einnig landsstjórninni samtímis.

Stóryrðin geta verið svo óttalega vandræðaleg þegar þau hitta mann sjálfan fyrir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Benedikt Gíslason: Samkeppni mikil á íslenskum bankamarkaði – skattsporið stærra en erlendis

Benedikt Gíslason: Samkeppni mikil á íslenskum bankamarkaði – skattsporið stærra en erlendis
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Svarthöfði skrifar: Hildur mætir ólesin í munnlegt próf

Svarthöfði skrifar: Hildur mætir ólesin í munnlegt próf
Eyjan
Fyrir 1 viku

Benedikt Gíslason: FBA og Kaupþing undir sama þaki – skrítin stemning í mötuneytinu

Benedikt Gíslason: FBA og Kaupþing undir sama þaki – skrítin stemning í mötuneytinu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigríður nýr þingflokksformaður Miðflokksins

Sigríður nýr þingflokksformaður Miðflokksins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Hálfgerður þursaflokkur

Orðið á götunni: Hálfgerður þursaflokkur
Eyjan
Fyrir 1 viku

Grace skrifar: Frá Íslandi til umheimsins – Gracelandic, saga þrautseigju og sjálfbærni

Grace skrifar: Frá Íslandi til umheimsins – Gracelandic, saga þrautseigju og sjálfbærni