Þetta segir Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, í grein um kvennaverkfallið í Morgunblaðinu í dag. Þar segir hún að jafnréttismál séu ekki einkamál kvenna og snerti alla.
„Þau eru forsenda velmegunar, lýðræðis, nýsköpunar og friðar,” segir hún og bendir á að hér á landi hafi verið gerðar mikilvægar breytingar á lagaramma jafnréttismála. Hún segir að baráttunni sé ekki lokið.
Sjá einnig: Stefán Einar hraunar yfir kvennaverkfallið – „Löngu kominn tími til þess að hætta þeim fíflagangi“
„Á kvennafrídeginum árið 2023 settu skipuleggjendur fram skýrar kröfur um að útrýma þyrfti kynbundnu ofbeldi, jafna að fullu launamun, bæta stöðu mæðra og vinna gegn mismunun á vinnumarkaði. Tveimur árum síðar eru flestar þessar kröfur enn aðkallandi. Ég vil sérstaklega nefna stöðu kvenna af erlendum uppruna, kvenna með fötlun og hinsegin fólks hér á landi.”
Halla segir mikilvægt að kalla eftir enn virkari þátttöku karla og drengja í jafnréttisbaráttunni.
„Hvergi er þessi þátttaka mikilvægari en í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi – bæði í raunheimum og á netinu. Ný lög gegn stafrænu ofbeldi eru skref í rétta átt en lögin nægja ekki ein og sér. Við þurfum í sameiningu að skapa menningu sem byggð er á virðingu, umburðarlyndi og víðsýni – menningu sem birtist í hversdagslegum samskiptum sem styrkja í stað þess að brjóta niður.“
Grein Höllu má lesa í heild sinni hér.