Á meðan aðrar útgerðir mala gull (hvernig er annað hægt þegar aðgangurinn að fiskinum í sjónum er nánast gefins?) virðist allt ganga á afturfótunum hjá Sigurgeiri Brynjari Kristgeirssyni, Binna í Vinnslustöðinni.
Í dag var tilkynnt um sölu á skuttogaranum Þórunni Sveinsdóttur VE-401. Ástæðan sem Binni gefur upp er að leiðrétting veiðigjalda sé að sliga Vinnslustöðina. Það var Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði sem keypti fleyið af Vinnslustöðinni sem keypti togarann, ásamt Leo Seafood fyrir tveimur árum. Þá lýsti Binni því fjálglega yfir að hvort tveggja yrði rekið áfram í óbreyttri mynd, fiskvinnslan og togarinn. Varð þá ýmsum hugsað til orða Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, sem lýsti því hátíðlega yfir 1997, þegar samherji keypti Hrönn, útgerðarfélag Guggunnar, að Guggan yrði áfram gul og gerð út frá Ísafirði. Vitanlega stóðst það ekki.
Sá er þó munurinn á Samherja og Vinnslustöð Binna, að Samherji er vel rekinn og skilar miklum hagnaði. Guggan var vitaskuld keypt til að auka arðsemi af rekstri Samherja, sem átti fyrir skip sem gátu vel bætt við sig kvótanum sem fylgdi Guggunni.
Orðið á götunni er að engum dyljist að Binni var að gera nákvæmlega það sama þegar Vinnslustöðin keypti Þórunni Sveinsdóttur og Leo Seafood. Vinnslustöðin átti skip fyrir sem vel geta veitt kvótann sem fylgdi Þórunni. Þá var engin þörf á að að bæta fiskvinnslu Leo Seafood við vinnslugetuna sem þegar var til staðar hjá Vinnslustöðinni. Það stóð aldrei annað til en að loka fiskvinnslunni og selja togarann. Til þess var leikurinn gerður.
Binni barmar sér hins vegar alltaf undan blankheitum. Einhvern veginn snýst alltaf allt við í höndunum á honum. Nú hentar það honum að kenna veiðigjaldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar um það sem hann ætlaði hvort sem er að gera.
Orðið á götunni er að Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði fái á sig leiðréttingu veiðigjalda, rétt eins og Vinnslustöðin. Samt er Loðnuvinnslan í aðstöðu til að fjárfesta í nýju skipi á meðan Vinnslustöðin segist nauðbeygð að selja skipið og segja upp áhöfninni, loka vinnslunni og reka starfsfólkið. Getur verið að Loðnuvinnslan sé einfaldlega miklu betur rekið fyrirtæki en Vinnslustöðin hans Binna? Mögulega er munurinn sá að eigendur Loðnuvinnslunnar séu ekki haldnir sama óslökkvandi þorstanum eftir arðgreiðslum út úr fyrirtækinu og Binni og aðrir eigendur Vinnslustöðvarinnar. Það er hægt að setja jafnvel arðbærasta fyrirtæki í rekstrarvanda ef fjármagn er ryksugað út úr rekstrinum.
Orðið á götunni er að einnig sé eftirtektarvert að á sama tíma og allt er sagt í kaldakoli hjá Vinnslustöðinni vegna hóflegrar leiðréttingar veiðigjalda tekur Brim sig til og kaupir Lýsi hf. fyrir 30 milljarða. Ekki er Brim undanþegið veiðigjöldum eða leiðréttingunni sem Alþingi samþykkti í sumar. Raunar borgar Brim miklu meira en Vinnslustöðin vegna þess að Brim er með mun meiri kvóta.
Orðið á götunni er að ólíkur bragur sé á því annars vegar hvernig Guðmundur Kristjánsson rekur Brim og hins vegar hvernig Binni rekur Vinnslustöðina, sem alltaf virðist berjast í bökkum, ef marka má hans eigin orð. Í öllu falli er ljóst að leiðrétting veiðigjalda er engan veginn reiðarslag fyrir vel rekin útgerðarfyrirtæki, hvað sem segja má um þau sem eru ekki jafn lánsöm með stjórnendur. Binni blanki verður sennilega að líta sér nær ef afkoman hjá Vinnslustöðinni er jafn tæp og hann heldur fram.