Í síðasta pistli hér á þessum vettvangi gerði ég að umtalsefni rómverskar fyrirmyndir stofnenda Bandaríkja Ameríku en fyrstu forsetar þeirra voru klassískt menntaðir og sóttu ekki einasta í smiðju fornaldarlýðvelda heldur var þeim mjög umhugað um að forða því að sama þjóðfélagsþróun yrði vestra og leitt hafði til falls rómverska lýðveldisins árið 27 fyrir Kristburð.
Stefán Snævarr, prófessor í Noregi, gerði pistil minn að umtalsefni á fésbókinni í liðinni viku og kann ég honum bestu þakkir fyrir þau skrif en hann gagnrýndi mig fyrir að geta þess ekki í umfjöllun um forsetana George Washington og Thomas Jefferson að þeir hefðu verið þrælahaldarar og hið sama hefði átt við um forngríska og rómverska valdsmenn sem þeir litu svo mjög til. Þá hefðu landnemar vestanhafs stráfellt frumbyggja og hrakið frá heimkynnum sínum.
Gott og vel. En er þetta ekki á vitorði flestallra sem eitthvað hafa kynnt sér sögu? Er virkilega þörf á að slá slíka varnagla við umfjöllun um sögulega viðburði og fella um leið að viðmiðum nútíðarmanna? Ég lít ekki svo á, en það leiðir aftur hugann að almennri menntun svo mjög sem hún er orðin losaraleg í okkar samtíma — menn jafnvel hættir að skilja ýmsar sögulegar skírskotanir sem ættu að vera á almanna vitorði.
Mér var hugsað til þessa þegar ég las á dögunum nýútkomna sjálfsævisögu Klemens Jónssonar landritara sem fæddur var 1862 en hann fór næstur ráðherra að völdum á heimastjórnartímanum. Árið 1925 flutti hann á Alþingi breytingartillögu til laga um Menntaskólann þar sem lagt var til að latínukennsla yrði aukin og kennsla í grísku tekin upp nýjan leik en hún hafði verið aflögð árið 1903. Í þingræðu sagði hann að svo gæti „vel farið í framtíðinni, að við, söguþjóðin sjálf, yrðum að leggja af sagnfræðiiðkanir og sagnaritun, vegna þess að enginn er nógu vel læs á latínu. Ég sé ekki betur en þetta stefni að hreinasta menningarleysi“.
Vitaskuld var ekki þörf á að þræla öllum í gegnum latneskar sagnbeygingar til að öðlast aðgöngumiða að háskólum heimsins en líklega hefur verið gengið of langt í útrýmingu latínunnar því kunnátta í henni er þörf (og stundum brýn) öllum þeim sem leggja ætla stund á nýmálin, íslensk fræði, sögu og ýmsar aðrar fræðigreinar. Nú er reyndar svo komið að aðeins fáeinir læra latínu til stúdentsprófs en víða í nálægum ríkjum er fornmálunum enn gert hátt undir höfði.
Ég hef um nokkurt skeið kennt laganemum réttarsögu og fyrir réttu ári dvaldi ég í nokkra daga við Háskólann í Heidelberg til að kynna mér kennslu í þeirri fræðigrein. Kollegar mínir þar ytra höfðu á orði að það stæði kennslu fyrir þrifum hversu margir stúdentanna þekktu ekkert til latínu. „Það vildi ég hefði áhyggjurnar yðar,“ hugsaði ég með mér því samt sem áður lærir upp undir fjórðungur menntaskólanema í Þýskalandi fornmálin og þá einkum latínu.
Klemens Jónsson hafði talsvert til síns máls. Meðal þess sem ég legg fyrir nemendur mína að lesa er Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar og hún hefst á þessum orðum: „Incipit libellus Islandorum“. Hér byrjar bók Íslendinga. Ari og aðrir lærdómsmenn fyrri alda voru einkum og sér í lagi latínumenn. Sæmundur fróði Sigfússon var slíkur afburðarmaður að gáfum að þeim var í þjóðsögunum jafnað við fjölkynngi. Í einni frásögninni sem Jón Árnason skráði segir að Sæmundur hafi eitt sinn veðjað við kölska um hvort hann skyldi aldrei koma með þann fyrri hluta úr vísu, hvorki á latínu né íslensku, sem hann gæti ekki sett botninn í. Sæmundur setti sjálfan sig í veð fyrir þessu og þar eð kölska lék ærinn hugur á að ná í hann þá sparaði hann ekki kveðskapartilraunir. Eitt sinn er Sæmundur var á setunum kom kölski og mælti: „Nunc tibi deest granem.“ (Gras þig skortir skemmtilega að skilningi mínum). Og Sæmundur svarar: „Digito tu terge foramen.“ (Skein mig fingri þá með þínum).
Í kórgólfi Hóladómkirkju er legsteinn Guðbrands biskups Þorlákssonar þar sem stendur: Expecto resvrectionem carnis / et vitam aeternam. Sem þýðir: Ég bíð upprisu holdsins og eilífs lífs. Telja mætti lengi upp orð í íslensku skóla- og kirkjumáli sem eiga sér latneskar rætur, sem dæmi má nefna albúm, arkitekt, atóm, altari, biskup, bréf, djákna, dósent, dúx, fermingu, formúlu, kalek, kandídat, munk, nunnu, postula, prest, prófessor, stúdent og töflu að ógleymdum orðunum skóli og kirkja.
Nú er októbermánuður, en öll mánaðaheitin eru rómversk. Október er áttundi mánuður hins forna tímatals sem hófst með mars, mánuði stríðsguðsins Martíusar. Í skólum er enn sunginn De bevitate vitae, söngurinn um hverfulleik lífsins sem hefst á orðunum Gaudeamus igitur. Áðurnefndur Jefferson Bandaríkjaforseti dáði rómverska skáldið Hóratíus sem orti annan skólasöng sem mikið var sunginn til skamms tíma: Integer vitae scelerisque purus (Vammlausum hal og vítalausum fleina).
Í íslenskri lögfræði er enn stuðst við ýmsar latneskar meginreglur sem bárust hingað með kirkjunni á miðöldum en eiga flestar rætur að rekja til Corpus juris civilis, hins mikla lagasafns Jústiníanusar keisara í Miklagarði. Ein frægasta reglan er pacta sunt servanda, samningar skulu standa. Einnig má nefna audiatur et altera pars, hlýða ber á hinn aðilann og þá er átt við að ekki megi leysa úr réttarágreiningi nema báðir aðilar hafi haft tækifæri til að skýra málstað sinn. In dubio pro reo judicandum est er ein mikilvægasta regla sakamálaréttarfarsins, en allan vafa bera að túlka sökunaut í hag. Libera sunt matrimona, hjúskapur er frjáls, er regla sem kemur hingað með Rómarkirkjunni — engan skal neyða í hjónaband. Við sáum hvernig fór með hjónabönd Hallgerðar og annarra sögualdarkvenna sem giftar voru gegn vilja sínum. Í lögfræðinni er enn rætt um að menn séu ýmist bona fide eða mala fide og reglulega skýtur bonus pater familias upp kollinum. Þannig mætti lengi telja.
O tempora, o mores! (hvílíkir tímar, hvílíkir siðir) kynni einhver að hrópa upp yfir sig af vanþóknun á samtímanum („síðustu og verstu tímum“) þar með talið hnignandi latínukunnáttu. En mitt í allri nýjungagirni samtímans er hollt að hafa í huga hin fornu varnaðarorð usus est magister optimus, reynslan er besti kennarinn, og víst að latínan hefur gagnast vel um aldir. Í henni er að finna trausta undirstöðu (terra firma) æðri menntunar. Þar með er rétt að láta staðar numið með þeim orðum sem jafnan eru hnýtt aftan við setningar í stærðfræði: quod erat demonstrandum, eða það sem sanna skyldi.