fbpx
Laugardagur 18.október 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem er á móti frjálsri fjölmiðlun

Eyjan
Laugardaginn 18. október 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjálfstæðisflokkurinn á Alþingi Íslendinga er á móti ríkisstyrkjum til einkarekinna fjölmiðla hér á landi nema Morgunblaðið fái áfram hámarkshlut úr sjóðum samfélagsins. Skilaboðin geta ekki verið skýrari – og sömuleiðis afhjúpunin, berhátta erindið; nái Mogginn ekki sínu fram, fá aðrir ekkert.

En römm er sú taug sem rakka dregur föðurtúna til.

Sjálfstæðismenn á þingi láta að því liggja að stjórnarmeirihlutinn sé í hefndarhug gagnvart Mogga. Málgagnið skuli fá minna sakir þeirrar áróðursmaskínu sem það sneri í gang gagnvart leiðréttingu veiðigjalda á vordögum þessa árs. Þeir kæra sig kollótta þótt fyrir liggi sú pólitíska sýn að lækka beri hámarksgreiðslur til öflugustu einkareknu fjölmiðlanna til að koma betur til móts við þá fátækustu, hringinn í kringum landið. Þeir virða að vettugi viljann til jöfnuðar; að hjálpa helst þeim sem þurfa mest á aðstoðinni að halda, en styðja síður þá efnamestu.

Íhaldsmenn hafa nefnilega ekki nokkurn áhuga á því að ríkissjóður jafni leikinn.

Og þar er saga Sjálfstæðisflokksins komin. Hann boðar frelsi, en iðkar helsi. Það er arfleifð hans. Því sagan svíkur ekki. Enginn stjórnmálaflokkur hefur staðið fastar í hælana gegn frjálsri og óháðri fjölmiðlun og þessi helsta og áhrifamesta þjóðmálahreyfing landsmanna á síðustu öld, og nokkuð fram eftir þeirri nýju. Og ritrýndar heimildir ljúga þar öngvu.

„Og þar er saga Sjálfstæðisflokksins komin. Hann boðar frelsi, en iðkar helsi.“

Vísir sprakk á limminu 1975. Uppreisnin á ritstjórn blaðsins stafaði af því að hugrakkir pennar þess þoldu ekki lengur yfirgang íhaldsins á ritstjórninni. Það mátti ekkert skrifa nema það hugnaðist höfðingjunum. Jafnvel leiðari blaðsins var aðsendur – og enginn vissi raunar hver skrifaði hann – en þegar Sveini R. Eyjólfssyni útgefanda fannst það ekki lengur boðlegt á tímum opnara samfélags, spurði hann Jónas ritstjóra Kristjánsson hvort hann gæti ekki allt eins skrifað þessar forystugreinar. Og það varð úr. En Jónas var svo frjáls í skrifum sínum að flokksforystan heimtaði hann burt.

Þar með stofnuðu Sveinn og Jónas Dagblaðið, fyrsta frjálsa og óháða dagblað landsins. Tímahvörfin voru strik í sandinn. En það stóð samt tæpt. Fyrirgreiðslan var engin. Bönkum var bannað að létta þeim reksturinn. Pólitískum kommisserum var hótað. Því þeir hefðu verra af ef frelsið fengi fjármuni.

Áratug seinna reyndu stofnendur Stöðvar 2 það sama á eigin skinni. Ísfilm borgaraaflanna, sem átti að eignast einkavæðinguna ókeypis, missti af lestinni, andvana fætt, af því að einstakt einkaframtak frjálsra manna úti í bæ þurfti ekki að taka í hendur nokkurs einasta höfuðmanns. En fékk að gjalda fyrir með undiröldu íhaldsins sem ætlaði sér yfirtökuna allan tímann.

Hálfum öðrum áratug seinna réru mektarvinir Morgunblaðsins að því öllum árum að koma í veg fyrir stofnun Fréttablaðsins. Enn var Sveinn R. Eyjólfsson að rugga bátum. Hann sótti um lánafyrirgreiðslu í Landsbankanum. En stjórnarformaður hans, skipaður af Sjálfstæðisflokknum, harðneitaði erindinu, jafnvel þótt viðskiptahugmyndin væru ríkulega rökstudd af arðbærni sinni og einstakri hugvitssemi. Því Mogginn mætti ekki við þessu. Og væntanlegur keppinautur fengi ekki krónu.

En Fréttablaðið fæddist landsmönnum og batt að lokum trúss sitt við Stöð 2 og Bylgjuna. En það var of mikið. Það var of frjálst. Allt of óháð. Ótemjuna þá arna varð að snúa niður. Beisla bratt í gerðinu.

Fjölmiðlafrumvarp formanns flokksins í byrjun aldarinnar gegn þessum miðlum er alvarlegasta aðför að frjálsri fjölmiðlun í þeim ríkjum sem Íslendingar vilja helst og oftast líkja sér við. Það átti að fella á brott þá blaðamennsku sem lét ekki að stjórn. Pressa án aðalritara þótti óhugsandi með öllu.

En gott og vel.

Frelsið er yndislegt, syngja Nýdanskir. Landsmenn taka undir, nema ef vera kunni sjálfstæðismenn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Af útlenskum lögum á Íslandi

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Af útlenskum lögum á Íslandi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Hvað ef ESB væri ekki til?

Thomas Möller skrifar: Hvað ef ESB væri ekki til?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Þegar Play ýtti á stopp

Nína Richter skrifar: Þegar Play ýtti á stopp
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Verðfall í búð reynslunnar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Verðfall í búð reynslunnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Stórt skarð höggvið í raðir skrímsladeildarinnar?

Svarthöfði skrifar: Stórt skarð höggvið í raðir skrímsladeildarinnar?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Lof is blænd – Arctic?

Nína Richter skrifar: Lof is blænd – Arctic?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Lýðræði og ESB

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Lýðræði og ESB
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Nína Richter skrifar: Hvað gerði þessi kona með Drake?

Nína Richter skrifar: Hvað gerði þessi kona með Drake?