Í hópnum Visting Iceland á samfélagsmiðlinum Reddit lýsti kanadískur ferðamaður gremju sinni með þetta fyrirkomulag hér á landi.
„Sem Kanadamaður næ ég einfaldlega ekki utan um þessi „bílastæðamál“ á Íslandi. Við eyddum auðveldlega 60–80 kanadadölum á dag í bílastæðagjöld, sem er hreint út sagt fáránlegt,“ sagði viðkomandi en 80 kanadadollarar jafngilda um sjö þúsund krónum.
Ferðamaðurinn benti á að í Kanada væri ókeypis að leggja við náttúruperlur og tók hann fram að skoðun hans á þessu gæti verið hlutdræg. Klórar hann sér þó í kollinum yfir því hvernig náttúruperlur geta verið í einkaeigu.
Sitt sýnist hverjum um þetta og bendir einn á að einhver þurfi að greiða fyrir þau áhrif sem ferðaþjónustan hefur á landið. „Og sanngjarnast er að það séu ferðamennirnir sjálfir en ekki um 400.000 Íslendingar,“ segir viðkomandi.
Annar segir að um sé að ræða plágu sem ekki er bara bundin við náttúruperlur eða landsbyggðina.
„Einkavæðing og sjálfvirknivæðing bílastæðagjalda hefur gert það mun flóknara að ferðast um ýmsa hluta Reykjavíkur en það var fyrir ekki svo löngu. Þeir sem verja þessa framkvæmd með því að segja að „einhver þurfi að borga fyrir þetta og hitt“ hafa því miður rangt fyrir sér: Í sumum tilfellum kann hluti gjaldsins að renna til viðhalds aðstöðu, en að mestu leyti snýst þetta einfaldlega um peningagræðgi, kerfisbundna – og í skjóli laganna – löglega sjóræningjastarfsemi. Heimamenn þjást ekki síður fyrir vikið en gestir, svo endilega kvartið yfir þessu.”
Mikið hefur verið rætt um gjaldtöku bílastæðafyrirtækja á ferðamannastöðum og kallaði FÍB til dæmis eftir því í fyrra að hemja þurfi rányrkju þessara fyrirtækja.
„FÍB hefur fengið fjölmargar kvartanir vegna bílastæðainnheimtunnar. Kvartað er undan þeim skamma tíma sem ferðafólki er gefinn til að greiða fyrir bílastæði, ruglingshættu milli bílastæða, einokun á greiðsluleiðum og óútskýrðum háum vangreiðslukröfum. Kvartað er undan því að á óskipulögðum malarstæðum er sama 1.000 kr. gjald tekið og á þeim örfáu bílastæðum sem eru til fyrirmyndar og bjóða upp á salernisaðstöðu. Að mati FÍB er gjaldtaka á bílastæðum á ferðamannastöðum gengin út í öfgar,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu á vef FÍB.