fbpx
Sunnudagur 12.október 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Mikill titringur innan Framsóknar – sótt að Sigurði Inga

Eyjan
Sunnudaginn 12. október 2025 12:00

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Greinilegur titringur er í Framsóknarflokknum sem nú undirbýr miðstjórnarfund sem haldinn verður laugardaginn 18. október. Í lokuðum hóp á Facebook er tekist á um orsakir þess að flokkurinn galt afhroð í alþingiskosningunum 30. nóvember á síðasta ári og hver séu eðlileg viðbrögð við því og hinu, að flokkurinn hefur haldið áfram að tapa fylgi ef marka má skoðanakannanir. Greinilega eru mjög skiptar skoðanir um orsakir slæms gengis flokksins.

Björgmundur Guðmundsson, Framsóknarmaður í Kópavogi, birti í vikunni færslu um stöðu flokksins þar sem hann kenndi ýmsu um ófarirnar – eiginlega öllu öðru en forystu flokksins – og lýsti órofa stuðningi við Sigurð Inga nánast um aldur og ævi. Flokkurinn hefði klemmst á milli tveggja öfgaflokka í síðustu ríkisstjórn og svo hefði Samfylkingin gerst svo ósvífin að stela allri stefnu Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar og því fór sem fór.

Björgmundur harmar það að Framsókn skuli nú gerð upp andstaða við bókun 35 og þar með spyrt saman við hina stjórnarandstöðuflokkanna. Í veiðigjaldamálinu hafi minnihlutinn á þingi verið „plataður“ út í málþóf um mál sem naut stuðnings almennings. Þar hafi Framsókn verið stillt upp með „hinum hægri flokkunum“. Varaformaður Framsóknar hefur reyndar lýst eindreginni andstöðu við bókun 35.

Ýmsir taka undir eitt og annað hjá Björgmundi í athugasemdum við færslu hans en í gær birti Kristinn Snævar Jónsson langa færslu í hópnum þar sem hann svaraði Björgmundi og lýsti algerlega öndverðri skoðun á forystunni og Sigurði Inga. Orðið á götunni er að vart hafi áður sést eins þung árás á flokksformann innan úr hans eigin flokki:

„Um leiðtogaforystu F ferð þú fögrum orðum og er það virðingarvert í sjálfu sér. Hún er þó augsýnilega ekki að gera sig, því miður, þar sem ástandið á fylgi flokksins samkvæmt skoðanakönnunum allt frá kosningunum segir allt aðra sögu – og þar við situr. Viðkvæðið á þeim bæ og í meðvirkni sumra hefur verið m.a. „Áfram veginn“. – Hvaða veg? Hver er framtíðarsýnin? Það sem virðist blasa við í þeim efnum er alvarlega löskuð ásýnd flokksins á landsvísu, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu (RS, RN og SV) og óskýr loðmulla í mikilvægum málum. Flokksmenn geta ekki allir verið sáttir við þessa stöðu mála. Á því þarf að verða breyting og þó fyrr hefði verið.“

Það vekur athygli að engar athugasemdir eru við færslu Kristins Snævars og orðið á götunni er að verið sé að reyna að þagga niður gagnrýnina á formanninn, sem kann því illa að vera ekki dáður og dýrkaður af eigin flokksmönnum.

Á komandi miðstjórnarfundi er búist við því að fram komi tillaga um að landsþing Framsóknar verði haldið vel fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Almennir flokksmenn, og ýmsir úr forystunni, átta sig á því að eitthvað verður að breytast og flokkurinn verður að sýna að hann hafi snúið við blaðinu – sé ekki lengur flokkurinn sem var hækja öfgavinstrisins og öfgahægrisins – heldur hafi hann eitthvað fram að færa fyrir fólkið í landinu. Framganga Framsóknar í Íslandsmeti í málþófi stjórnarandstöðunnar gegn leiðréttingu veiðigjalda var ekki til þess fallið sannfæra kjósendur um að Framsókn hafi einhverja sérstöðu meðal stjórnarandstöðuflokkanna.

Orðið á götunni er að þessi mál séu hvergi nærri útkljáð innan Framsóknar. Margir telja Sigurð Inga þurfa að axla ábyrgð sína á því að Framsókn er ekki lengur Framsókn. Enginn veit lengur fyrir hvað Framsókn stendur. Veit Framsókn það sjálf? Veit einhver hvað hann er að kjósa þegar hann kýs Framsókn?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Diane Keaton er látin

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Átökin í borginni – stóra prófið fyrir Guðrúnu Hafsteins

Orðið á götunni: Átökin í borginni – stóra prófið fyrir Guðrúnu Hafsteins
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Tilvistarkreppa Sjálfstæðismanna – hver er munurinn á Reykjavík og Kópavogi?

Svarthöfði skrifar: Tilvistarkreppa Sjálfstæðismanna – hver er munurinn á Reykjavík og Kópavogi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Sjálfstæðismenn með Gallupkönnun um fylgi við mögulega oddvita

Orðið á götunni: Sjálfstæðismenn með Gallupkönnun um fylgi við mögulega oddvita
Eyjan
Fyrir 1 viku

Snorri býður sig fram til varaformanns

Snorri býður sig fram til varaformanns
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir orðaskipti Guðrúnar og Dags vera ein af ástæðum þess að fólk á erfitt með að treysta stjórnmálafólki

Segir orðaskipti Guðrúnar og Dags vera ein af ástæðum þess að fólk á erfitt með að treysta stjórnmálafólki
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Verðfall í búð reynslunnar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Verðfall í búð reynslunnar