Í vikunni dvaldist ókunnur maður í Alþingishúsinu næturlangt. Hann laumaði sér innum ólæstar dyr og vafraði um húsið alla nóttina. Árvökull vaktmaður hússins kom aðvífandi en gestinum tókst að sannfæra hann um lögmæt erindi sín. Eftirlitsmyndavélar fylgdust eftir þetta með manninum þar sem hann rölti um húsið í algjöru tilgangsleysi. Um morguninn fjarlægði lögregla manninn af vettvangi. Fjölmiðlar ræddu við þungbúna þingmenn og ráðherra sem voru bæði skelfdir og leiðir yfir þessari uppákomu. Allir litu þeir málið graf-graf-grafalvarlegum augum eins og þeirra er vandi. Hinn auðtrúa þingvörður missti vinnuna í einum grænum.
Það er spennandi að velta því fyrir sér hvað manninum gekk til. Á langri geðlæknisævi hef ég hitt marga fyrrum þingmenn sem sakna sárt þingsetunnar. Þeir minnast þeirra tíma þegar síminn hringdi í sífellu og þeir voru á eilífu flakki um heiminn í erindum þings og þjóðar. Menn sátu á mikilvægum fundum og létu taka myndir af sér á Þingvöllum með öðru fyrirmenni. Þingmennska varð lífsstíll sem einkenndist af háleitum hugmyndum um eigið mikilvægi. Þingmenn sem duttu út af þingi í kosningum eða prófkjöri leið sérlega illa þegar hátimbraður heimur þeirra hrundi saman. Sumir fyrrum þingmenn geta ekki einu sinni gengið fram hjá þinghúsinu án þess að fella tár af eftirsjá og söknuði.
Líklegast finnst mér að næturgesturinn óvænti sé úr hópi fyrrum þingmanna. Hann þoldi ekki lengur við og ákvað að taka atburðarásina í eigin hendur. Alla nóttina valsaði hann um þinghúsið eins og þingflokksformaður og átti allan heiminn. Honum var sama þótt enginn væri í húsinu nema vofa Jóns Sigurðssonar. Hann sýndi afburða þolgæði að halda sér vakandi heila nótt á Alþingi Íslendinga. Mörgum sitjandi þingmönnum reynist það erfitt um hábjartan daginn. Ég vona bara að honum hafi þótt heimsóknin hverrar mínútu virði. Hann hefur áttað sig á því að Alþingi er jafn innantómt að næturþeli og það er þegar þingstörfin standa sem hæst.