Birkir Karl Sigurðsson og Leifur Þorsteinsson, þáttastjórnendur hins geysivinsæla hlaðvarps Chess After Dark, voru gestir Helga Fannars Sigurðssonar í Íþróttavikunni á 433.is þetta skiptið.
Birkir er mikill Bliki og er því eðlilega ekki sáttur með hversu langt liðið er frá toppnum í Bestu deild karla, þar sem Víkingur hefur þegar tryggt sér titilinn.
„Þetta hefur ekki verið nægilega gott en hann er með smá þolinmæði af því þetta var frábær titill í fyrra,“ sagði Birkir og á þar við Halldór Árnason, sem gerði Blika að meisturum á sínu fyrsta tímabili sem aðalþjálfari í fyrra.
Halldór skrifaði undir nýjan samning á dögunum, sem hefur verið milli tannanna á fólki.
„Það er ekki í anda Blika að láta hann fara svo ég held að hann sé öruggur í starfi. Mér finnst hann eiga skilið að fá þriðja tímabilið.“
Breiðablik er í Sambandsdeildinni í haust og Birkir segir að Halldór þurfi þó að safna stigum þar.
„En ef hann skilar engum stigum í hús í Sambandsdeildinni má alveg setjast niður og fara yfir hlutina.“
Þátturinn í heild er í spilaranum.