Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna hafa lagt til að óskað verði eftir umsögnum í gegnum samráðsgátt Reykjavíkurborgar vegna tillögudraga um umbætur í náms- og starfsumhverfi leikskóla. Um er að ræða svokallað Reykjavíkurmódel, skipulagsbreytingar með nýrri gjaldskrá með hvötum til að hafa dvalartíma barna í hverri viku 38 tíma eða skemmri. Eins stendur til að innheimta sérstakt gjald fyrir virka daga milli jóla og nýárs, í dymbilviku og í haust- og vetrarfríum grunnskóla. Módelið minnir um margt á fyrirkomulag sem var tekið upp í Kópavogi en það hefur verið nokkuð umdeilt.
Fulltrúar meirihlutans lögðu fram bókun á fundi skóla- og frístundaráðs á mánudaginn þar sem tillögunum er fagnað en tekið fram að nauðsynlegt sé að fá umsagnir mismunandi hagaðila til að ná fram ólíkum sjónarmiðum. Tillögurnar eigi að auka stöðugleika og öryggi í starfi með börnum, skapa fyrirsjáanleika og draga úr fáliðun.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram bókun þar sem þeir samþykkja að vísa tillögunum í umsagnarferli en taka ekki afstöðu til tillagnanna sjálfra.
Áheyrnarfulltrúar leikskólastjóra og starfsfólks í leikskólum lýstu ánægju með tillögurnar enda hafi starfsumhverfi leikskóla verið mjög krefjandi undanfarin ár, bæði fyrir börn og starfsfólk. Starfsmannavelta mælist nú 33 prósent sem valdi tíðum mannabreytingum og ráðningar á hæfu framtíðarfagfólki séu hverfandi. Þessi þróun hafi áhrif á bæði öryggi og gæði menntunar í leikskólum. Tillögurnar séu mikilvægt skref í átt að bættu starfsumhverfi barna. Óbreytt stefna muni ekki duga til.
Áheyrnarfulltrúi foreldra lagði fram bókun og benti á að það sé ekki borgarinnar að skipuleggja gæðastundir fjölskyldna. Fjölskyldur séu alls konar og þurfi mismunandi hluti. Tillögur borgarinnar séu til þess fallnar að auka álag á fjölskyldur eins og raunin hafi orðið í Kópavogi.
„Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna bendir á að það er ekki Reykjavíkurborgar að ákveða hvenær fjölskyldur eiga gæðastundir saman. Búið er að gera miklar breytingar á fyrirkomulagi leikskólastarfs í Reykjavík undanfarin ár, t.d. á fyrirkomulagi skráningardaga, skerðing á opnunartíma leikskóla og svo framvegis. Fjölskyldur eru alls konar og þurfa mismunandi hluti. Líkt og rannsóknir á þeim breytingum sem hafa verið gerðar í Kópavogi er mögulegt að álag á fjölskyldur aukist við þessar breytingar og þá sérstaklega er líklegt að áhrifin á mæður verði mikil og ófyrirsjáanleg.“
Sjá einnig: Mikil óánægja meðal foreldra með Kópavogsmódelið – Saka bæjaryfirvöld um að fegra stöðuna