Andri Fannar Baldursson er kominn aftur inn í íslenska A-landsliðið fyrir komandi leiki í undankeppni HM. Af því er hann stoltur. Andri lék síðast með liðinu í æfingaleik snemma árs í fyrra en hefur ekki spilað keppnisleik með A-liðinu síðan 2021.
„Það er ógeðslega gaman. Mér líður vel, það er ekkert skemmtilegra en að vera með landsliðinu,“ sagði Andri við 433.is á liðshóteli Íslands í dag, en framundan eru leikir við Úkraínu og Frakkland hér heima.
Andri Fannar var ungur kominn inn í A-landsliðið en meiðsli hafa til að mynda sett strik í reikninginn undanfarin ár. Var hann þó einnig stór hluti af U-21 árs landsliðinu á þeim tíma. Í sumar gekk Andri til liðs við Kasimpasa í Tyrklandi frá Bologna, þaðan sem hann hafði verið lánaður víða undanfarin ár. Er hann orðinn lykilmaður hjá nýju liði.
„Þetta er eitthvað sem ég þurfti virkilega á að halda. Mér líður vel andlega og líkamlega. Ég spila nánast 90 mínútur í öllum leikjum og það er að ganga vel. Þetta er það sem lífið snýst um.“
Andri kann vel við sig í Tyrklandi, þar sem mikil menning er fyrir fótbolta.
„Þetta er í Istanbúl og það búa einhverjar 20 milljónir manna þarna, mikið kaos en borgin er geggjuð og klúbburinn líka. Ég hef aldrei séð eins mikil gæði á öllu og í kringum liðið. Það eru bjartir tímar framundan.
Tyrkinn er mjög heitur. Þeir gjörsamlega deyja fyrir fótboltann og það snýst allt um fótboltann. Það er ótrúlega gaman að fá að upplifa það og vera hluti af því.“
Nánar er rætt við Andra í spilaranum.