Andri Fannar Baldursson er kominn aftur í íslenska landsliðið eftir nokkra fjarveru og er hann, sem og aðrir landsliðsmenn, ansi brattur fyrir komandi leiki gegn Úkraínu og Frakklandi í undankeppni HM.
Ísland burstaði Aserbaísjan og var nálægt því að ná stigi gegn Frakklandi í fyrstu leikjum mótsins í síðasta mánuði. Það er mikilvægt að ná í hagstæð úrslit, sér í lagi gegn Úkraínu, til að eiga góðan séns á að komast allavega í umspilið.
„Það er mjög góður andi í hópnum og mikill meðbyr með liðinu. Við erum allir að róa í sömu átt og allir með gott sjálfstraust. Öllum líður vel svo ég sé enga ástæðu til annars en að ná góðum úrslitum,“ segir Andri við 433.is.
Liðið er byrjað að kynna sér úkraínska liðið ásamt þjálfurum og öðrum í teyminu.
„Við eigum að eiga góða möguleika bæði sóknar og varnarlega. Við eigum að geta verið meira með boltann og stjórnað leiknum meira en á móti Frökkum. Svo koma örugglega móment þar sem þeir ýta okkur aðeins niður. Þá þurfum við að vera þéttir og verjast vel. Svo þurfum við að vera yfirvegaðir og rólegir með boltann, nýta okkar færi vel.“
Það er uppselt á Laugardalsvöll á báða leikina sem framundan eru.
„Það er bara geggjað að heyra að fólkið sé aftur komið á bak við landsliðið, það gefur leikmönnum svo mikið og við viljum gera allt fyrir íslensku þjóðina og sækja góð úrslit í þessum tveimur leikjum,“ segir Andri.
Nánar er rætt við hann í spilaranum.