Fyrrverandi Sky Sports sérfræðingurinn Matt Le Tissier hefur gagnrýnt Gary Neville harðlega eftir nýleg ummæli hans um reiða miðaldra hvíta karlmenn, og telur að sjónvarpsstöðin muni samt standa með honum rétt eins og hún gerði með Jamie Carragher á sínum tíma. Carragher hrækti þá á unga stúlku og föður hennar.
Neville birti myndband á LinkedIn eftir hryðjuverkaárásina á samkomuhús gyðinga í Manchester, þar sem tveir létust. Þar sagði hann: „Við erum látin snúast hvert gegn öðru, og það er ógeðslegt. Þessi sundrung er að miklu leyti sköpuð af reiðum miðaldra hvítum körlum sem vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera.“
Ummælin hafa vakið mikla reiði og sumir stuðningsmenn hafa hótað að segja upp áskrift sinni að Sky Sports. Le Tissier, sem var rekinn úr Soccer Saturday árið 2020, segir Neville hafa ráðist beint að kjarnahópi áhorfenda stöðvarinnar.
„Hann er í raun að ráðast á þann hóp sem borgar honum launin, sem er frekar skrýtið,“ sagði Le Tissier við nemendur við Southampton Solent háskóla.
„Það virðist snúast um það hvoru megin við umræðuna þú stendur og ef þú passar ekki í dagskrána sem ríkjandi er í fjölmiðlum í dag, færðu ekki sömu fyrirgreiðslu.“
Le Tissier hefur áður sagt að brottrekstur sinn megi rekja til andstöðu sinnar við Black Lives Matter og afstöðu til kórónuveirunnar.