Það hefur ekki farið fram hjá Svarthöfða frekar en öðrum landsmönnum að í síðustu viku opnaði Morgunblaðið nýjan menningarvef með pompi og pragt. Svo hélt blaðið sérstaklega upp á þennan nýja menningarvef í laugardagsblaðinu með því að birta upptalningu frá „Samtökum skattgreiðenda“ (SS) á tíu rithöfundum sem hafa fengið ritlaun á undanförnum 25 árum. Ritlaunin eru framreiknuð til dagsins í dag og brotin niður á bók sem beinn kostnaður. Þar er ekki látið staðar numið heldur eru lesendur blaðsins upplýstir um það hvað fyrrnefnd „samtök“ telja hverja blaðsíðu hafa kostað skattgreiðendur.
Hinar skrifandi stéttir hafa vitaskuld fagnað ógurlega þessu framtaki „samtakanna“ og Morgunblaðsins, og þá sérstaklega blaðamanninum sem setur nafn sitt við fréttina, Stefáni Einari Stefánssyni, fyrir þetta frábæra framtak. Ekki var seinna vænna að finna almennilega mælistiku á afköst rithöfunda. Kannski er þessi mæling þó fullgróf – var ekki hægt að brjóta þetta niður á orð eða jafnvel stafabil?
Eilítið hefur það skyggt á gleði fólks með framtakið að svo virðist sem blaðamaður Morgunblaðsins hafi gerst sekur um kranablaðamennsku vegna þess að í ljós hefur komið að SS samantektin var hreint ekki mjög ítarleg heldur vantaði fjölda bóka (og þar með blaðsíðna) hjá allavega nokkrum höfundum á listanum. Hafa spunnist af þessu litríkar umræður á samfélagmiðlum og jafnvel í útvarpi.
SS virðast vera hópur fólks sem hefur ákveðið að skipa sig sérstakamálsvara skattgreiðenda í landinu. Ekki kannast Svarthöfði við að hafa veitt þessu fólki umboð til að tala í sínu nafni og hefur hann þó verið skattgreiðandi í áratugi. Ætli skattakóngar landsins, á borð við Þorstein Má Baldvinsson, Sigurð Gísla og Jón Pálmasyni, viti yfirleitt af þessum samtökum?
Svarthöfði sér að maður að nafni Skafti Harðarson kallar sig formann SS og hefur þar í stjórn tvo meðstjórnendur. Skafti er þekktur hægrimaður, sem eitt sinn var Inspector Scholae í Menntaskólanum í Reykjavík. Í öðrum skólum er þetta að vera formaður skólafélagsins. Ýmsir mætir menn hafa gegnt þessu formannsembætti í gegnum tíðina. Má þar nefna Hannes Hafstein, fyrsta íslenska ráðherrann, Geir Hallgrímsson, síðar forsætisráðherra, Davíð Oddsson og Geir H. Haarde, sem báðir urðu síðar forsætisráðherra. Úr öðrum flokkum má nefna Ásgeir Ásgeirsson, síðar forseta Íslands, Einar Olgeirsson, leiðtoga íslenskra kommúnista, Steingrím Hermannsson, síðar forsætisráðherra, og Dag B. Eggertsson, alþingismann og fyrrverandi borgarstjóra.
Embætti Inspectors hefur nefnilega löngum verið ákveðinn stökkpallur til metorða og áhrifa í pólitík hér á landi. Svarthöfði sér fyrir sér hvar Skafti Harðarson hefur setið við símann og beðið eftir símtalinu sem aldrei kom. Inspectorinn reyndist enginn stökkpallur fyrir Skafta. Hann reyndi svo sjálfur fyrir sér, orðinn fúll út í Sjálfstæðisflokkinn, og bauð fram últrahægrilista á Seltjarnarnesi í sveitarstjórnarkosningum fyrir nokkrum árum en komst ekki inn. Það eina sem eftir stendur hjá honum er að hann útnefndi sig formann SS og kemst stundum í fjölmiðla út á það. Kannski betra en ekkert en alls ekki það sem stefnt var að.
Það er athyglisvert að hvorki Skafti né Stefán Einar láta sig það neinu varða að Morgunblaðið er aldeilis á ríkisspenanum og fullkomin óþarfi að benda á rithöfunda í þeim efnum. Morgunblaðið fékk á síðasta ári vel á annað hundrað milljónir í fjölmiðlastyrk og ekki má gleyma því að fyrir nokkrum árum afskrifaði ríkisbanki í tvígang stórar skuldir Morgunblaðsins sem framreiknaðar til dagsins í dag eru milli 10 og 11 milljarðar. Morgunblaðið er því réttnefndur ríkismiðill.
En þó að framinn hafi hafnað Skafta Harðarsyni er Svarthöfði nokkuð hugsi yfir því að Stefán Einar Stefánsson blaðamaður skuli taka að sér að birta svo gallaða frétt sem raun ber vitni og fylgja henni svo eftir með yfirgangi og skömmum á opinberum vettvangi. Raunar er það nokkuð sem Stefán hefur tamið sér í seinni tíð.
Svarthöfði veltir því alvarlega fyrir sér hvað í ósköpunum kom fyrir piltinn prúða sem ávallt kom vel fyrir og var kurteis (enda siðfræðingur og trúaður að auki). Hann var kosinn formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur og þó að honum væri reyndar hafnað eftir eitt kjörtímabil verður að segjast eins og er að yfir honum var nokkuð sem mætti kalla fágaðan klassa. Hvað kom eiginlega fyrir? Hvað breyttist þannig að nú höfum við þann Stefán Einar sem við höfum í dag. Það er hreinlega eins og umskiptingur sé á ferð.
Svarthöfði veltir því líka fyrir sér hvort eitthvað hafi komið fyrir eigendur Morgunblaðsins sem hýsa skrif Stefáns og aðra opinbera framkomu hans, kannski að samfélagsmiðlum frátöldum. Hvað gerðist sem varð til þess að eigendum Morgunblaðsins finnst í góðu lagi að hinn fyrrum prúði blaðamaður fer nú um og rýrir orðspor blaðsins og allra sem þar starfa.
Svarthöfði hefur af þessu áhyggjur og það er spurning hvort ekki sé kominn tími á inngrip uppi í Hádegismóum. Inngrip er vel þekkt aðferð til að beina fólki sem lendir á refilstigum inn á rétta braut á nýjan leik. Þykir engum vænt um Stefán Einar og Morgunblaðið? Kannski rithöfundar gætu tekið þetta að sér?