AP-fréttaveitan greinir frá þessu.
Í fréttinni kemur fram að meginástæða aukningarinnar séu bakteríur sem bera hið svokallaða NDM-gen. Slíkar sýkingar geta verið afar erfiðar viðureignir og virka aðeins tvö sýklalyf gegn þeim – bæði lyfin eru þó dýr og aðeins gefin í æð.
Í umfjöllun AP kemur fram að þar til fyrir nokkrum árum hafi þessar bakteríur verið taldar „framandi“ og tengdust þær einkum sjúklingum sem höfðu fengið læknismeðferð utan Bandaríkjanna.
Ný gögn sýna þó að tilfellum í Bandaríkjunum hefur fjölgað meira en fimmfalt á örfáum árum. „Vöxtur NDM-baktería í Bandaríkjunum er mjög alvarleg ógn og mikið áhyggjuefni,“ hefur AP-fréttaveitan eftir David Weiss, smitsjúkdómafræðingi við Emory-háskólann.
Sérfræðingar CDC telja líklegt að margir beri bakteríurnar óafvitandi, sem geti stuðlað að útbreiðslu í samfélaginu. Þetta geti haft áhrif á hversdagslegar sýkingar sem hingað til hafa þótt auðveldar í meðferð, svo sem þvagfærasýkingar, sem nú gætu orðið þrálátar og endurteknar.
Í umfjöllun AP kemur fram að lyfjaónæmi myndist þegar örverur – til dæmis bakteríur – þróa hæfni til að standast lyfin sem ætlað er að drepa þær. Röng eða ófullkomin notkun sýklalyfja hefur verið stór þáttur í þróun ónæmis, þar sem bakteríur sem ekki tekst að drepa verða harðgerari.