fbpx
Föstudagur 19.september 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Vilja gera Lilju að formanni – Þórólfur plottar með Sjöllum og Miðflokki

Eyjan
Föstudaginn 19. september 2025 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að Sjálfstæðismenn hafi miklar áhyggjur af fallandi gengi Framsóknar og óttist að flokkurinn kunni að þurrkast út ef framheldur sem horfir. Ekki er það þó manngæskan ein sem veldur umhyggju Sjálfstæðismanna heldur telur fólk þar á bæ að án Framsóknar verði erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að komast í ríkisstjórnarsamstarf sem honum er að skapi.

Áhrifamikill hópur innan Sjálfstæðisflokksins hefur komist að þeirri niðurstöðu að flokkurinn geti ekki setið á hliðarlínunni og horft á Framsókn fjara út og möguleika Sjálfstæðisflokksins á að komast í nýja helmingaskiptastjórn verða að engu. Nú verða því brettar upp ermar og Framsóknarflokknum komið til hjálpar.

Orðið á götunni er að Sjálfstæðismenn hafi tekið höndum saman við Þórólf Gíslason, kaupfélagsstjóra í Skagafirði, um að efla Framsóknarflokkinn og afstýra því að flokkurinn þurrkist út. Þórólfur er með mikil og góð tengsl inn í báða flokka, auk þess sem Kaupfélag Skagfirðinga er meðal stærstu eigenda Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins.

Orðið á götunni er að þetta samkrull Þórólfs og Sjálfstæðismanna til að bjarga Framsóknarflokknum hafi verið í gangi í nokkra mánuði og að lykilmenn í því séu Þórólfur sjálfur og Óli Björn Kárason, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Óli Björn er frá Sauðárkróki og þeir Þórólfur þekkjast vel. Þá hefur Illugi Gunnarsson, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, einnig verið nefndur til sögunnar sem hluti af innsta hring.

Þórólfur hefur löngum haft mikinn áhuga á framgangi Framsóknarflokksins og mjög kært er með honum og Guðna Ágústssyni, fyrrum formanni flokksins. Ekkert leyndarmál er að báðir hafa haft tröllatrú á Lilju Alfreðsdóttur og viljað framgang hennar sem mestan.

Orðið á götunni er að björgunaráætlunin fyrir Framsókn snúist einmitt um að gera Lilju að formanni flokksins. Þórólfi og Sjálfstæðismönnum þykir einsýnt, eins og raunar mörgum Framsóknarmönnum, að fullreynt sé með Sigurð Inga Jóhannsson í brúnni. Flokkurinn er nú við það að þurrkast út og full ástæða til að setja neyðaráætlun í gang.

Hernaðaráætlunin gengur út á að knýja fram flokksþing hið fyrsta og líklegt er að það verði fljótlega eftir áramót. Þar komi Lilja Alfreðsdóttir sem frelsandi engill til að leiða Framsókn úr þeim ógöngum sem flokkurinn er kominn í.

Orðið á götunni er að plottið með Lilju sé aðeins annar angi hernaðaráætlunarinnar. Samhliða á að hamast á ríkisstjórninni með öllum tiltækum ráðum innan og utan Alþingis. Fókusinn verður á Flokki fólksins sem stjórnarandstaðan telur vera veikasta hlekkinn í ríkisstjórninni. Þetta hefur verið reynt áður og má. m.a. minna á aðförina sem RÚV og Morgunblaðið gerðu að Ásthildi Lóu Þórsdóttur. Sú aðför endaði með því að Ásthildur Lóa varð að segja af sér ráðherraembætti en haggaði ekki ríkisstjórninni. Í vetur verður haldið áfram og fastlega má búast við því að misjöfn meðul verði notuð, enda eru óþokkabrögð skrímsladeildar Sjálfstæðisflokksins alþekkt.

Markmiðið er að þvinga fram kosningar sem fyrst. Eftir kosningar er svo planið að Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Miðflokkur myndi saman ríkisstjórn. Auk Sjálfstæðismanna og Þórólfs hefur Miðflokkurinn lagt lóð sín á vogarskálar Lilju og Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, vinnur nú með Lilju að því að undirbúa formannsframboð hennar.

Orðið á götunni er að gangi plottið upp muni taka við helmingaskiptastjórn með nýju sniði. Sögulega hafa helmingaskiptastjórnir verið ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknar en nú er ætlunin að Miðflokkurinn bætist við, enda mjög ólíklegt að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur nái þingstyrk til að mynda saman tveggja flokka stjórn í bráð.

Orðið á götunni er að þetta hernaðarplan einkennist af mikilli óskhyggju og ólíklegt sé að hlutirnir atvikist með þeim hætti sem stefnt sé að. Alls ekki sé útilokað að Lilja Alfreðsdóttir verði næsti formaður Framsóknar og það jafnvel á þessum vetri. Hins vegar sé ólíklegt að það takist að valda úlfúð innan samhentrar ríkisstjórnarinnar sem aldrei hefur mælst vinsælli en einmitt nú.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Tveir nýir vörumerkjastjórar til Ölgerðarinnar

Tveir nýir vörumerkjastjórar til Ölgerðarinnar
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Framkvæmdastjóri N1: Skortur innviða flöskuháls fyrir rafvæðingu bílaflotans

Framkvæmdastjóri N1: Skortur innviða flöskuháls fyrir rafvæðingu bílaflotans
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Fram til þessa hafa engar kynstaðfestandi skurðaðgerðir farið fram hjá skjólstæðingum barna- og unglingageðdeildar undir 18 ára aldri“

„Fram til þessa hafa engar kynstaðfestandi skurðaðgerðir farið fram hjá skjólstæðingum barna- og unglingageðdeildar undir 18 ára aldri“
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Blús á brautarpalli

Óttar Guðmundsson skrifar: Blús á brautarpalli
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jón vill breyta þessu við hátíðleg tækifæri – „Þurfum við ekki að taka höndum saman“

Jón vill breyta þessu við hátíðleg tækifæri – „Þurfum við ekki að taka höndum saman“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ólík viðbrögð við hatri

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ólík viðbrögð við hatri
Eyjan
Fyrir 1 viku

Vilhjálmur bálreiður út í ríkisstjórnina

Vilhjálmur bálreiður út í ríkisstjórnina
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Stöðugleiki skiptir mestu máli

Thomas Möller skrifar: Stöðugleiki skiptir mestu máli