Stjórnmál hverfast um þjónustu. Það liggur fyrir. En þau fara einatt hvert í sína áttina þegar því er svarað hverjum þau eigi að þjóna, og hvernig opinberum fjármunum er ráðstafað.
Fjárlög segja einatt skýra sögu í þessum efnum. Þau eiga svo erfitt með að ljúga um hvert samfélagi okkar er beint í rauntíma. Fjárlög eru vindmælir. Þau segja okkur hvaðan áttin blæs. Og hverjum er ætlað lognið. Fjárlög eru nefnilega eina og sanna hallamálið á hægra og vinstra mengið í sérhverju samfélagi.
Valdhafar síðustu ára, með gömlu íhaldsflokkana innanborðs, hafa sýnt og sannað hverjir eru þeim hugleiknastir í samfélaginu. Þeir hafa lagt sig í líma við að styðja við þá betur settu með ráðum og dáð. Fjárlög þeirra og regluverk hafa nefnilega verið nokkuð afhjúpandi. Og nokkur dæmi berhátta þá pólitík.
Áhugi hægriaflanna á samsköttun hjóna er sniðinn að hagsmunum ríkustu tíundarinnar í samfélaginu, en kemur þeim lakar settu ekki að nokkru gagni. Og þegar boðað er af nýjum valdhöfum að draga þennan ríkisstuðning til efnameiri til baka, er hrópað á torgum um óréttlæti þessa miskunnarlausa meirihluta sem leiði nú landsstjórnina, jafnvel þótt fyrir liggi að persónuafsláttur verði áfram að fullu nýtanlegur á milli hjóna af hvaða launaflokki sem er. En óbreytt kerfi takk, segir íhaldið.
Af sama meiði er einbeittur vilji gömlu flokkanna að viðhalda þeim rétti að nota séreignasparnað til að greiða niður húsnæðislán, sem einmitt hefur komið þeim efnaríku í mestar þarfir. Og enda þótt fyrir liggi að ríkissjóður hafi orðið af 90 milljarða tekjum frá 2014 með þeim afdráttarlausa ráðahag að stjórnvöld styðji við ríkustu tíundirnar, eru hægrimenn á því að afnám reglna af þessu tagi séu hrein og bein árás á alþýðu manna á Íslandi. Stuðninginn megi ekki leggja af.
„Afturhaldið í landinu hefur einmitt stjórnað með þeim hætti að auka byrðarnar á þá tekjulægri svo svigrúm skapist til að létta undir með breiðustu bökunum.“
Líku hefur verið farið með ríkisstyrki til rafbílakaupa á undanliðnum misserum. Þeir hafa ávallt endað í vasa þeirra tekjuhæstu. Og dreifingin breyttist ekkert eftir að beinir styrkir voru teknir upp í stað ívilnana á síðasta ári. Hátt í helmingur þeirra 1,4 milljarða króna sem Orkusjóður veitti einstaklingum hér á landi, að tilstuðlan fyrri stjórnvalda, rann til tveggja hæstu tekjutíundanna þegar miðað er við heildartekjur styrkþega i fyrra. Þar af fóru hátt í 400 milljónir króna, eða nálega þriðjungur af heildinni, til tekjuhæsta hópsins. En hlífum honum áfram, sífra gamlir valdsmenn, miður sín.
Hér eru aðeins þrjú dæmi nefnd til sögunnar. En þau eru upplýsandi. Þau vitna um harðsvíraða hægristefnu sem er öðru fremur ætlað að aðstoða þá landsmenn sem þurfa minnst á því að halda. Því jöfnunarkerfi sem opinberar álögur eru í eðli sínu, hefur samviskusamlega verið snúið á haus um árabil. Afturhaldið í landinu hefur einmitt stjórnað með þeim hætti að auka byrðarnar á þá tekjulægri svo svigrúm skapist til að létta undir með breiðustu bökunum. Fyrir vikið hefur auður og áhrif þeirra síðarnefndu haldið áfram að aukast ár frá ári.
Niðurstaðan liggur fyrir í nýlegu svari við fyrirspurn á Alþingi um skiptingu eigna og skulda. Þar kom fram að ríkasta 0,1 prósent landsmanna, á að giska 269 fjölskyldur, áttu 382 milljarða króna í eigið fé um þarsíðustu áramót. Eiginfjárhlutfall þeirra af eignum er um 98 prósent.
Og þá liggur það einmitt fyrir að hægriöflunum, eins og dæmin sanna, er mest umhugað um þennan hóp landsmanna. Honum ber að hjálpa umfram aðra þjóðfélagshópa.
Og þegar þessu er reynt að breyta, almenningi í hag, flykkjast leiðtogar og aðrir málsvarar ójöfnuðar í pontu Alþingis og klaga nýjan meirihluta, enda kunni hann með engu móti að ráðstafa tekjum ríkissjóðs, svo sómi sé að.
Þess þá heldur að veiðigjöld fari nú ekki að sliga ofsaríkustu útgerðir Íslands. Þæfum það nú bara.