Fyrirsjáanlegt var að stjórnarandstaðan myndi finna fyrsta fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur allt til foráttu. Þingmenn stjórnarandstöðunnar sýndu í vor og sumar hressilega á spil sín með Íslandsmeti í málþófi og fleiri miður gáfulegum uppákomum en óneitanlega kemur nokkuð á óvart að formaður og reynslumesti þingmaður Sjálfstæðisflokksins skuli leyfa sér að halda því fram að í frumvarpinu sé um að ræða skattahækkanir upp á milljarðatugi.
Orðið á götunni er að einhver sæmilega læs á bókhald (er ekki einhver endurskoðandi í Sjálfstæðisflokknum?) ætti að aumka sig yfir þingflokk Sjálfstæðismanna og útskýra fyrir þingmönnum flokksins að frádráttarbær liður í rekstrarreikningi getur aldrei talist vera skattur. Veiðigjöldin eru einmitt slíkur liður. Fyrirtæki draga hann einfaldlega frá tekjum eins og annan kostnað t.a.m. húsaleigu. Engum dettur í hug að kalla það skattahækkun þegar húsaleiga er hækkuð. Nema kannski Sjálfstæðismönnum?
Orðið á götunni er að allt of langt sé seilst þegar Sjálfstæðismenn kalla breytingu á gjaldtöku af bílum og umferð „skattahækkun“. Síðasta ríkisstjórn var sjálf búin að reyna að koma þessari breytingu í gegn en tókst það ekki fremur en svo margt annað. Reyndir þingmenn og stjórnmálaforingjar sem vilja láta taka sig alvarlega geta ekki þvaðrað svona út í bláinn. Tekjur af bílum og umferð hafa að mestu verið teknar í gegnum skattlagningu á jarðefnaeldsneyti. Undanfarin ár hefur notkun þess farið minnkandi ár frá ári og hefur það veruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs. Uppstokkun gjaldtöku til að bregðast við þessari þróun er vitaskuld ekki „skattahækkun“.
Orðið á götunni er að þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar kunni ekki að skammast sín. Í sjö ár sátu þessir flokkar saman í óstarfhæfri ríkisstjórn sem lék reka á reiðanum, safnaði upp innviðaskuld upp á 600 milljarða, vanrækti mennta- og heilbrigðiskerfið og setti Ísland í biðflokk í flestum málaflokkum, ekki síst í orkuöflun. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur er að moka flórinn eftir sjö ára óstjórn vinstristjórna sem sátu undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar. Ríkisstjórnin hefur ekki setið í fulla níu mánuði og vitaskuld þarf lengri tíma en sem nemur einni meðgöngu til að hreinsa upp sjö ára ósóma eftir síðustu ríkisstjórn.
Einn stjórnarandstöðuþingmaður stóð sig með miklum sóma í gær. Orðið á götunni er að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hafi rætt um fyrirhugaðar aðgerðir stjórnvalda gegn Ísrael vegna þjóðarmorðsins á Gaza af þekkingu, yfirvegun, kurteisi og skynsemi. Að henni frátalinni virðist þeim góðu kostum vart til að dreifa í þingflokki Sjálfstæðismanna.
Orðið á götunni er að það sé vel af sér vikið hjá ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur að slá niður fjárlagahalla og stefna í hallalaus fjárlög á næsta ári þegar hún þarf í sömu andrá að berjast við hrikalega innviðaskuld eftir síðustu ríkisstjórn og bæta við fé í mikilvæga málaflokka sem voru vanræktir í sjö ár.