fbpx
Laugardagur 06.september 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Utanríkispólitík stjórnarandstöðunnar

Eyjan
Fimmtudaginn 4. september 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Utanríkispólitíkin hefur nú beinni áhrif á hag heimila, atvinnustefnu og samkeppnisstöðu fyrirtækja en áður. Utanríkisráðherra orðaði það einhvern veginn þannig á dögunum að utanríkispólitíkin væri í reynd stærsta innanlands viðfangsefnið nú um stundir.

Á þessari öld hefur heimsmyndin smám saman verið að breytast án þess að Ísland hafi endurmetið stöðu sína í alþjóðasamfélaginu. Á síðasta ári sneru bandarískir kjósendur svo utanríkispólitík Bandaríkjanna á hvolf.

Þjóðin sem áður var forystuþjóð frjálsra viðskipta er nú í alheimstollastyrjöld. Þjóðin sem áður var í forystu lýðræðisríkja fylgir nú leikregluleysi einræðisherra.

Nýtt stöðumat

Í þessu ljósi hafa ríkisstjórnir Norðurlanda og annarra Evrópuríkja lagt nýtt mat á stöðu sína og viðbrögð.

Ný ríkisstjórn Íslands hefur eins og önnur vestræn ríki tekið þessi mál föstum tökum. Utanríkisráðherra gömlu stjórnarinnar opnaði reyndar þá umræðu.

Hjá vestrænum ríkisstjórnum gætir þó enn haltu mér slepptu mér hugsunar gagnvart Bandaríkjunum. Löndin eru um sinn of háð þeim um viðskipti og varnir.

Svipaða sögu má segja um Bandaríkin. Ýmsir stjórnmálamenn þar tala jafnvel um bandalagsríki í sama mund og þeir eru í tollastríði við þau og ógna fullveldi þeirra og öryggi.

Horfin heimsmynd

Í þessu ljósi er vert að gefa utanríkispólitík stjórnarandstöðuflokkanna þriggja gaum. Sú nýja hugsun, sem fyrrverandi utanríkisráðherra opnaði, hefur enn ekki endurspeglast í málflutningi þeirra.

Afstaða þeirra allra til alþjóðasamstarfs byggist á horfinni heimsmynd, sem byrjaði að breytast fyrir þrjátíu árum. Þeir eru einfaldlega fastir þar.

Það er erfitt að láta þannig pólitík ríma við hagsmuni almennings og kröfuna um samkeppnishæfni fyrirtækja á þessum miklu umbrotatímum.

Festa er mikilvæg í utanríkismálum. En hún verður að falla að heimsmynd samtímans eigi hún að styrkja stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.

Ekilssætið

Miðflokkurinn hefur það sem af er þessu ári verið í ekilssæti og leitt málflutning stjórnarandstöðuflokkanna.

Sú forysta hefur ekki bara snúist um málþóf. Hún hefur einnig náð til utanríkismálanna.

Það virkaði eins og utanríkispólitísk umpólun fyrr í sumar þegar talsmenn Sjálfstæðisflokksins fylgdu Miðflokknum í því að horfa á heimsókn forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins með augum þess í neðra: Gerðu hana tortryggilega og töldu hana andstæða íslenskum hagsmunum.

Samstöðurof

Utanríkisráðherra stofnaði til þverpólitísks samstarfs um mótun varnarmálastefnu líkt og önnur Norðurlönd hafa þegar lokið við.

Í kjölfar þess að sumarmálþófið fór út um þúfur sagði Miðflokkurinn sig frá þessu þverpólitíska samstarfi fyrir þá sök að það beindist í of ríkum mæli að Evrópu. Rökstuðningurinn er trúlega valinn af því að Evrópusambandið er nú eini samstarfsvettvangur þjóða um lýðræði og frjáls viðskipti.

Þeirri spurningu er enn ósvarað hvort þessi afstaða Miðflokksins rífur samheldni stjórnarandstöðuflokkanna.

Evrópska efnahagssvæðið

Fyrir síðustu kosningar boðuðu frambjóðendur stjórnarandstöðuflokkanna sókn í landbúnaði með víðtækari verndartollum. Annað hvort eru þeir með þessu tilbúnir að setja EES-samninginn í uppnám eða þeir eru bara að skrökva að bændum.

Lögfesting á bókun 35 snýst um framkvæmd EES-samningsins. Fyrri ríkisstjórn réði ekki við þessa lagasetningu vegna fyrirstöðu í baklandi þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

Miðflokkurinn er alfarið á móti. Það þýðir að hann er tilbúinn til að fórna EES-samningnum.

Flokkunum þremur tókst með sameiginlegu málþófi að hindra að þetta hagsmunamál atvinnulífs og heimila næði fram að ganga á liðnu þingi.

Enn er óvíst hvort þessi málþófssamstaða þeirra heldur eða rofnar á haustþinginu?

Lýðræðið

Möguleg full aðild að Evrópusambandinu er ein af þeim augljósu spurningum sem þarf að svara þegar kemur að aðlögun Íslands að nýjum veruleika í alþjóðamálum.

Ríkisstjórnarflokkarnir eru sammála um að fela þjóðinni að svara þessari stóru spurningu og virða ákvörðun hennar.

Stjórnarandstöðuflokkarnir þrír hafa aftur á móti verið einhuga á móti þjóðaratkvæði. Í kenningu þeirra um pólitískan ómöguleika felst líka að þeir muni ekki virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu nema hún falli að hugmyndum þeirra um að byggja utanríkispólitík landsins á horfinni heimsmynd.

Fróðlegt verður að fylgjast með því á næstu mánuðum hvort þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fylgi Miðflokknum áfram í þessari andlýðræðislegu afstöðu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sleggjudómar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sleggjudómar
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Er Ísland fimm stjörnu land?

Thomas Möller skrifar: Er Ísland fimm stjörnu land?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Strætófólkið og spandex-rassarnir

Nína Richter skrifar: Strætófólkið og spandex-rassarnir
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sverð og skildir íslenskra hagsmuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sverð og skildir íslenskra hagsmuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Vestrænt sjálfshatur

Björn Jón skrifar: Vestrænt sjálfshatur
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Svona er pólitíkin að breytast á Íslandi

Sigmundur Ernir skrifar: Svona er pólitíkin að breytast á Íslandi