Hljómsveitin Frýs vakti verðskuldaða athygli á Músíktilraununum 2024 fyrir afburða hljóðfærakunnáttu og þétta tónlist. Það fór svo að á lokakvöldi Músíktilrauna tók hljómsveitin Frýs titilinn Hljómsveit fólksins eftir almenna símakosningu. Frýs hefur gefið út fjögur lög sem öll má nálgast á streymisveitunni Spotify. Líktu gagnrýnendur hljómsveitinni við bönd eins og Red Hot Chilli Peppers, Jet Black Joe og Led Zeppelin og þykja lagasmíðar og útsetningar metnaðarfullar og flóknar.
Nú hafa orðið breytingar á bandinu. Daníel Sveinn Jörundsson, söngvari Frýs fór til Danmerkur í nám og sagði um leið skilið við hljómsveitina.
„Ég ákvað fyrir nokkru að ég vildi flytja til Danmerkur í nám. Margar af mínum bestu minningum á ég með Frýs og ég óska þeim alls hins besta. Þetta er allt gert í góðu enda meðlimir Frýs vinir mínir,“ segir Daníel í færslu sem birtist á Facebook-síðu Frýs.
Við brottfall Frýs upphófst mikil leit að nýjum söngvara. Hún hefur nú borið árangur og við keflinu tekur Sólveig Torfadóttir og gefur Daníel ekkert eftir.
Fyrstu opinberu tónleikar Frýs síðan Sólveig tók við fara fram í Iðnó á Menningarnótt.
„Það er gríðarlega spennandi að fá að taka við keflinu af Daníel. Frýs spilar tónlist sem er mér að skapi, þetta er svona þétt og gott gamaldags rokk og það er mikill metnaður í bandinu,“ segir Sólveig Torfadóttir, söngkona Frýs. Hún hvetur öll til að koma við í Iðnó klukkan 21 á Menningarnótt „Við ætlum að spila bæði gamalt efni en einnig nýtt sem aldrei hefur heyrst áður opinberlega. Ég held að rokkunnendur verði ekki svikin.“
Hljómsveitin Frýs samanstendur af fimm ungmennum úr Reykjavík. Tónlist þeirra er undir áhrifum frá sígildu og síkadelísku rokki. Hljómsveitina skipa þau Haukur Lár Hauksson sem spilar á gítar, Björn Máni Björnsson sem spilar á hljómborð, Brynjar Karl Birgisson sem spilar á bassa, Rafael Róbert Símonarson á trommur og Sólveig Torfadóttir, söngkona. Sveitin hefur eins og áður segir gefið út fjögur lög en stefnir á frekari útgáfu í vetur.