Stoltenberg átti ekki von á símtali frá Trump og var að sögn miðla á borð við VG og Politico á gangi í Osló þegar Trump hringdi og vildi ræða við hann. Segja miðlarnir að hann hafi viljað ræða um tollamál og Friðarverðlaun Nóbels.
Stoltenberg hefur staðfest að símtalið átti sér stað og að margir úr starfsliði Trump, þar á meðal Scott Bessent fjármálaráðherra, hafi einnig tekið þátt í samtalinu.
„Við ræddum um tolla og samvinnu á efnahagssviðinu. Þetta var undirbúningur fyrir samtal hans við Jonas Gahr Støre forsætisráðherra. Ég vil ekki skýra nánar frá samtalinu,” sagði Stoltenberg og tjáði sig ekki um hvort þeir hafi rætt um Friðarverðlaun Nóbels.
Það er norska Nóbelsnefndin sem ákveður árlega hver hlýtur Friðarverðlaun Nóbels.
Fjórir bandarískir forsetar hafa fengið Friðarverðlaunin, síðast Barack Obama.