Davíð Bergmann Davíðsson, starfsmaður hjá Fjölsmiðjunni, segir að ungur maður frá Tadsíkistan í Mið-Asíu , áður hraustur og í toppformi, sé örkumlaður fyrir lífstíð eftir grimmdarlegt einelti á íslenskum vinnustað. Eineltið gegn manninum hafi náð hámarki er hann varð undir lyftara sumarið 2023 og er hann 75% öryrki eftir atvikið. Ungi maðurinn fullyrðir við Davíð að um ásetning samstarfsmanns hans hafi verið að ræða en ekki slys.
Davíð, sem fjallar um málið á Facebook-síðu sinni, segir í samtali við DV að hann geti ekki gefið upp nafn fyrirtækisins þar sem þessi atburður átti sér stað, þann 27. júlí 2023, þar sem málið sé enn í rannsókn lögreglu.
„Mér er svo misboðið hvað þetta hefur tekið langan tíma, þjáningarnar sem þessi drengur hefur gengið í gegnum eru ólýsanlegar. Ég held að þetta sé rannsakað sem sakamál,“ segir Davíð. Hann kynntist manninum ásamt bróður hans í Fjölsmiðjunni fyrir nokkrum árum og segir þá bræður vera einstaka mannkostamann. Pistill hans um málið er eftirfarandi:
„Ég get ekki orða bundist lengur og þagað þunnu hljóði yfir þessu og mér finnst ég bera skyldu til að verja fyrrverandi nemanda minn sem varð fyrir svo hrottalegu einelti á vinnustað eftir að hann hætti hjá mér. Hann er í dag 75% öryrki og örkumlaður til lífstíðar, aðeins 22 ára og líf hans var lagt í rúst.
Ég myndi ekki vilja óska neinum að fara í gegnum þær þjáningar sem hann hefur þurft að upplifa eftir þetta og á hverjum einasta degi, nema þessum fávitum sem voru valdir að þessu. Þeir hafa sannað það svo ekki sé um villst að síðasta fíflið er ekki fætt.
Þessi drengur kom fyrir nokkrum árum ásamt bróður sínum í Fjölsmiðjuna til mín og þeir unnu á minni deild. Jafnframt sóttu þeir skóla innan Fjölsmiðjunnar og utan hennar á okkar vegum. Þessir drengir komu frá landi sem heitir Tadsíkistan í Mið-Asíu með landamæri að Afganistan, Kína, Kirgistan og Úsbekistan. Þar af leiðandi voru þeir uppaldir við aðra siði, venjur og önnur trúarbrögð.
Ég fann aldrei fyrir því að þessir drengir aðlöguðust ekki okkur, það gerðu þeir svo sannarlega og þeir lögðu sig 100% fram við að læra íslensku og öllu sem þeir tóku sér fyrir hendur, hvort heldur það var í námi eða vinnu.
Það var ekki til í þeim neitt sem heitir öfgar eða trúarofstæki og lengi vel vissi ég ekki hvers trúar þeir væru enda skiptir það engu máli í mínum huga. Þetta voru bara innflytjendur sem komu hingað til lands í leit að betra lífi og þeir komu hingað ásamt móður þeirra og litla bróður. Þetta fólk ætlaði sér aldrei að leggjast upp á aðra eða okkar kerfi heldur hafa þeir bræðurnir með gífurlegum dugnaði og atorkusemi séð fyrir sér og sínum.
Svo ég segi sjálfur frá þá hef ég aldrei á minni ævi kynnst öðrum eins ljúfmennum og harðduglegum einstaklingum sem dreymir jafn sterkt um að fá að tilheyra íslensku samfélagi og þeir hafa gert tilraun til að fá íslenskan ríkisborgararétt en var hafnað.
Eftir að þeir fóru frá okkur héldum við alltaf sambandi við þá; við höfum fylgst með þeim með aðdáun í fjarlægð og hvernig þeir voru að plumma sig í íslensku samfélagi. Meira að segja hafði annar þeirra haldið ræðu á íslensku fyrir fullum sal í Hörpu þegar hann var verðlaunaður fyrir framúrskarandi framurstöðu í skóla.
Síðan kom sumarfrí og þá fóru þeir út á vinnumarkaðinn að leita sér að vinnu. Annar þeirra var heppinn og komst á góðan vinnustað en hinn var ekki eins heppinn og fór að vinna á stórum íslenskum vinnustað þar sem voru innandyra fávitar og fífl sem komu fram við hann eins og annars flokks þegn og lögðu hann í hrottalegt einelti.
Sem dæmi þurfti hann að skríða eftir gólfum og tína upp karamellubréf á meðan sá sem skipaði honum sat í lyftara og benti honum hvert hann ætti að skríða. Þeir neituðu að tala við hann á íslensku og reyndu að koma því þannig fyrir að hann kæmi alltaf of seint í hina vinnuna sem hann sótti með því að hleypa honum ekki úr vinnu nema á síðustu stundu þannig að hann kom of seint þangað. Samt var dagsverkinu lokið hjá þeim þannig að hann hefði svo auðveldlega getað komist á réttum tíma á hinn vinnustaðinn en þeir gerðu sér að leik að kvelja hann svona. Eins var hann látinn klifra upp á stæður þar sem vörubretti eru geymd sem enginn annar þurfti að gera og er að auki stórhættulegt.
Síðan kom svarti dagurinn, 27. júlí 2023, þegar eineltið náði sínum efstu hæðum sem endaði þannig að drengurinn „varð“ undir lyftara þar sem þetta vitgranna fífl var að fjarstýra honum sem endaði með því að hann keyrði, þvert yfir hann og bakkaði svo til baka. Þannig að fótur hans fór í mél, mjöðm, hendi og öxl og bak og er það kraftaverk að hann skuli vera á lífi í dag þótt dekkið á lyftaranum snerti eyrnasnepil hans. Í dag bíður hans að vera örkumla til lífstíðar. Drengurinn fullyrðir það við mig að þetta var ekki slys heldur ásetningur og ef ég trúi einhverjum í þessu þá er það honum.
Fyrir hvað var það að vera öðruvísi útlits eða af því að hann talaði ekki fullkomna íslensku? Hver getur skýringin verið? Og það sem er verst er að gerandinn fékk einungis áminningu í starfi. Hvert erum við eiginlega komin á meðan drengurinn líður vítiskvalir alla daga og mun örugglega gera allt sitt líf og það er ekki enn búið að rannsaka málið til hlítar þó svo að liðin séu tvö ár síðan? Þessi drengur hefur verið að fara í kostnaðarsamar aðgerðir til útlanda og það hefur ekki komið króna frá fyrrverandi vinnuveitanda eða nokkur stuðningur frá þeim.“
„Þetta er þyngra en tárum taki. Ég er að fara að hitta hann eftir korter og ég kvíði fyrir því. Þessi drengur var í toppformi, var í líkamsrækt fjórum sinnum í viku og æfði bardagaíþróttir hjá mér,“ segir Davíð í samtali við DV. Hann lýsir óendanlegri hryggð yfir því að líf þessa unga og efnilega manns hafi verið lagt í rúst með einelti og ofbeldi á íslenskum vinnustað.
„Ég hef hitt hann reglulega, hann hefur eðlileg verið geypilega þunglyndur og líður ömurlega,“ segir Davíð en maðurinn getur ekki gengið óstuddur og er í stöðugum meðferðum vegna afleiðinga slyssins.
Hann segir bróður mannsins einnig mikinn mannkostamann en hann þurfi núna að slíta sér út til að halda uppi fjölskyldunni eftir að bróðir hans örkumlaðist:
„Bróðir hans er í fjórum til fimm störfum til að halda fjölskyldunni uppi. Mér brá þegar ég hitti hann fyrir fjórum dögum. Hann vinnur dagvinnu hjá Reykjavíkurborg, vinnur í Hagkaup á kvöldin, er síðan í íhlaupavinnu hjá Subway og pitsustað og síðan ber hann út Morgunblaðið á morgnana. Sá drengur er framúrskarandi nemandi og hélt svo frábæra ræðu í Hörpu að áhorfendur táruðust.“
Davíð segir ennfremur: „Ég vil að það verði tekið utan um þessa fjölskyldu.“