Guðjón skrifar þar um slysagildrur á landinu og þá einkum með tilliti til ferðamannastaða. Sjálfur er Guðjón reyndur leiðsögumaður en hann varð fyrir því óláni að slasast illa á dögunum þegar hann var með hóp ferðamanna á Þingvöllum.
„Ekki veit ég hversu mörg hundruð ef ekki þúsund sinnum ég hef komið á Þingvöll. Þangað fór ég fyrst í fylgd foreldra minna fyrir um 70 árum. Vorið 1992 útskrifaðist ég sem leiðsögumaður og geri mér ekki grein fyrir hversu oft ég hef komið þangað, oft tugi skipta síðustu sumrin með ferðahópa,“ segir hann.
Slysið varð að morgni 1. ágúst síðastliðins þegar hann gekk með hóp ferðamanna á Hakið en þaðan er mjög fallegt útsýni yfir þjóðgarðinn.
Guðjón bendir á að um síðustu aldamót hafi aðstöðunni verið gjörbreytt til að greiða götu ferðafólks. Göngustígur hafi verið byggður, útsýnispallur og handrið sett til að koma í veg fyrir að fólk hætti sér of nærri brún Almannagjár.
„En hinum megin pallsins hefur frágangurinn verið látinn mæta afgangi. Rétt norðan við gömlu hringsjána var öll aðstaða gerð þrengri. Hvort þörfin á byggingarefni var vanmetin eða einhver stal af smíðaviðnum er ekki gott að segja en víða í samfélaginu er því miður til fólk sem er býsna hirðusamt um annarra manna eigur. Þar sem pallurinn þrengist hef ég oft tekið mér stöðu enda hef ég nokkrum sinnum orðið vitni að því að ferðafólki hafi yfirsést þessi hætta og orðið fótaskortur,“ segir hann.
Hann rifjar svo upp að þennan morgun hafi komið askvaðandi ungur maður út úr mannþvögunni og tekið stefnuna á hann.
„Hvort hann hafi verið að laumast í vasa einhvers eða einfaldlega hraða för sinni skal ósagt látið. Það er alltaf til fólk sem sér ástæðu til að hraða sér allt í einu. Eðlisviðbrögð mín voru þau að víkja skref aftur á bak, sem olli því að bakið skellur á hvassa hraunnibbu þar sem breiðari göngustígurinn endar. Hjálparlaust komst ég ekki á fætur en naut aðstoðar tveggja ferðamanna,“ segir Guðjón í grein sinni.
Hann segist hafa fundið mikið til en reynt að harka af sér og tókst honum að ljúka ferðinni eftir að hafa komið við á Geysi og Gullfossi.
„Næstu nætur voru svefnlitlar vegna kvala og mikilla þjáninga þrátt fyrir neyslu verkjalyfja. Mánudagsmorguninn 4. ágúst læt ég aka mér á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi þar sem hugað var að sárum mínum. Eftir röntgen- og tölvusneiðmyndatöku kemur í ljós að þrjú rifbein reyndust brotin auk þess sem vökvi hafði safnast fyrir í brjóstholinu,“ segir Guðjón sem var útskrifaður eftir tíu tíma dvöl á Landspítalanum.
Hann segir að það verði að teljast saga til næsta bæjar að þaulkunnugur leiðsögumaður verði fyrir byltu eins og hann í þessu tilfelli.
„Slysin gera aldrei boð á undan sér. Augljósar slysagildrur eru mjög víða eins og sjá má á þessari ljósmynd sem ég tók á símann minn skömmu eftir byltuna,“ segir hann og hvetur og væntir þess að þjóðgarðurinn á Þingvöllum láti til sín taka og bæti úr.
„Slysagildrum verður að fækka hvar á landinu sem er. Því miður höfum við Íslendingar oft sofið á verðinum og það verður að teljast mjög miður og okkur til mikils vansa. Ferðafólk sem hingað kemur á að fara héðan með góðar minningar um fallegt land,“ segir hann og tekur fram að hann muni ekki gera neinar kröfur á hendur þjóðgarðinum þó atvikið hafi kostað hann töluverðar þjáningar.
„En mér þykir tilhlýðilegt að gera þær ófrávíkjanlegu kröfur að þegar í stað verði gerðar úrbætur innan tilskilinna tímamarka á viðeigandi hátt þar sem ýtrustu kröfum um öryggi sé fylgt í einu og öllu. Með því myndi þjóðgarðurinn sýna öllum öðrum ferðaaðilum á Íslandi mjög gott fordæmi.“