Lögreglan í Nýja-Sjálandi hefur handtekið konu grunaða um barnaníð eftir að tveggja ára stúlka fannst á lífi í ferðatösku í farangursrými langferðabíls.
Atvikið átti sér stað á sunnudag þegar bílstjóri rútu frá fyrirtækinu InterCity stöðvaði faratækið við þorpið Kaiwaka, norðan við Auckland. Farþegi bað um aðgang að farangursrýminu og tók bílstjórinn þá eftir hreyfingu innan í einni töskunni. CNN greinir frá.
Þegar taskan var opnuð kom í ljós að inni í henni var lítil stúlka, sem var mjög heit og greinilega búin að vera lokuð inni um tíma, en virtist annars ómeidd.
Barnið var flutt á sjúkrahús og var þar enn síðdegis á sunnudag að staðartíma.
Konan, sem ekki hefur verið nafngreind, var kærð fyrir vanrækslu og illa meðferð á barni og mun mæta fyrir dóm á mánudag. Ekki fylgir sögunni hvernig konan tengist barninu.
Málið hefur vakið mikla athygli, ekki síst í ljósi þess að skilmálar hjá InterCity-fyrirtækinu segja til um að börn undir þriggja ára aldri ferðast frítt í rútum fyrirtækisins.