Guðlaugur Þór Þórðarson kom að fjöllum í gærmorgun þegar Morgunglugginn á Rás 2 bar undir hann skýrsludrög sem voru unnin í september árið 2018. Þá var Guðlaugur ráðherra og í þessum skýrsludrögum kom skýrt fram að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu hafi ekki verið afturkölluð með formlegum hætti. Guðlaugur bar við minnisleysi og sagðist þurfa tíma til að skoða skýrsluna.
„Ég man nú ekki eftir þessari en þú ert að sýna mér hana núna.“
Einn kafli skýrslunnar heitir hreinlega: „Aðildarviðræðunum var ekki formlega slitið“ og spurði fjölmiðlamaðurinn Helgi Seljan fyrrum ráðherrann hvers vegna hann haldi því nú fram að hann hafi ekki haft hugmynd um að Evrópusambandið hafi allar götur litið svo á að aðildarumsókn Íslands hafi ekki verið dregin til baka.
Málið hefur vakið töluverða athygli í ljósi framgöngu Guðlaugs undanfarið þar sem hann hefur sakað ríkisstjórnina um að leggja að forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursulu von der Leyen, að segja aðildarumsóknina enn gilda.
Guðlaugur fékk lokadrög skýrslunnar í hendur árið 2018, samþykkti hana ekki og því var hún aldrei birt opinberlega. RÚV fékk hana í hendur í krafti upplýsingalaga.
Sjá einnig: Helgi Seljan kom Guðlaugi í opna skjöldu – Ber við minnisleysi um sína eigin skýrslu
Minnisleysi Guðlaugs virðist vera nokkuð langvarandi og hefur borið brátt að. Skýrsludrögin eru merkt september 2018 en í apríl 2019 fékk Guðlaugur óundirbúna fyrirspurn frá þingmanni Miðflokksins, Bergþóri Ólasyni, um stöðu aðildarumsóknarinnar. Bergþór vísaði til þess að samkvæmt skýrslu Evrópuráðsþingsins sem var gefin út í janúar 2019 sé það afstaða Evrópusambandsins að Ísland hafi ekki dregið umsóknina til baka.
Guðlaugur, þrátt fyrir áðurnefnd skýrsludrög sem hann hafði fengið rétt rúmu hálfu ári áður í hendurnar, sagðist ekkert kannast við málið.
„Ég skal alveg gangast við því að ég hef ekki fundið fyrir því að menn telji að við séum með aðildarumsókn í gangi,“ svaraði ráðherrann og bætti við: „Svo sannarlega hef ég ekki orðið var við að þeir líti svo á að við séum með aðildarumsókn í gangi.“
Guðlaugur tók fram að hann hefði ekki haft tíma til að kynna sér skýrslu Evrópuráðsþingsins og hann vissi í sjálfu sér ekkert um málið.
Bergþór spurði þá hvort Guðlaugur væri ekki til í að taka af allan vafa um stöðu umsóknarinnar, í ljósi þess að Evrópuráðsþing og Evrópusambandið líti greinilega á hana sem gilda.
Guðlaugur skaut til baka á Bergþór og benti á að honum væri nær að spyrja sína eigin menn, Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Braga Sveinsson. Ef vafi væri á því hvort umsóknin hefði verið dregin til baka eða ekki þá væri það á þeirra ábyrgð.
„Háttvirtur þingmaður Bergþór Ólason er að kynna þetta mál fyrir mér núna ásamt öðrum þeim þingmönnum sem hér eru. Ég veit ekkert um þetta. Ég veit hins vegar að ég er tilbúinn að leggja mjög mikið á mig til að sjá til þess að Ísland gangi ekki í Evrópusambandið. Ég vissi ekki til þess að nein hætta væri á ferðinni, en háttvirtur þingmaður er í raun að segja að hann hafi áhyggjur af því, ef ég skil svo rétt, að þeir aðilar sem héldu um málið á sínum tíma hafi ekki komið þessu til skila með afgerandi hætti. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en svo.“
Guðlaugur sagði loks hreint út:
„Eins og ég nefndi þá hef ég ekki orðið var við þessa túlkun hjá Evrópusambandinu, svo ég segi það hreint út.“
Þessi orðaskipti ráðherrans og þingmannsins vöktu það mikla athygli að mbl.is fjallaði sérstaklega um málið og vísaði til þess að samkvæmt skýrslu sem utanríkisráðuneytið sendi frá sér í apríl 2018 hefði aðeins verið gert hlé á umsóknarferlinu og að ítrekað hafi komið fram í máli talsmanna ESB og gögnum frá stofnunum sambandsins að umsóknin hafi ekki verið formlega dregin til baka.
Í niðurlagi fréttar mbl.is segir:
„Miðað við það sem hér hefur verið rakið er ljóst að um samdóma álit Evrópusambandsins og utanríkisráðuneytis Íslands er að ræða þess efnis að umsókn Íslands um inngöngu í sambandið, sem send var til forystumanna þess af þáverandi ríkisstjórn vinstriflokkanna sumarið 2009, hafi ekki verið dregin formlega til baka heldur hafi einungis verið gert hlé á umsóknarferlinu. Ennfremur að það er staðföst og margítrekuð afstaða Evrópusambandsins að umsóknin sé enn til staðar.“
Eftir að skýrslan sem mbl.is vísaði til var birt spurði Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrum utanríkisráðherra og þá þingmaður Miðflokksins, Guðlaug hvað „algert hlé“ þýðir og hvernig slíkt orðalag hafi ratað í skýrsluna. Guðlaugur svaraði spurningunni ekki beint heldur sagði orðalagið vera í takt við það sem var til staðar árið 2015, en það hafi verið fyrir hans ráðherratíð. Hann fullvissaði þingmanninn þó um eftirfarandi:
„Það er ekki þannig að menn detti óvart inn í Evrópusambandið. Það verður að vera stefna viðkomandi ríkisstjórnar og þingmeirihluti fyrir því að sækja um, í það minnsta. Ég get fullvissað háttvirta þingmenn og aðra um að menn þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af því að íslenska þjóðin vakni upp einn daginn og hafi óvart dottið inn í Evrópusambandið. Það er ekkert að gerast.“
Víkur þá sögunni eftir að skýrsludrögunum alræmdu. Þar er farið yfir afstöðu Evrópusambandsins og um hana segir:
„Aðildarviðræðum Íslands og ESB hafði ekki verið formlega slitið, enda engin fordæmi fyrir slíku. ESB leit hugsanlega svo á að rökrétt væri að íslensk stjórnvöld gerðu algert hlé á aðildarviðræðum svo lengi sem mat stæði yfir á aðildarferlinu og þróun mála innan sambandsins, eins og boðað hafði verið. Frumútgáfa bréfs utanríkisráðherra styður þessa túlkun, en skv. orðalagi þess og svarsbréfs ESB virðist hugmyndin hafa verið að halda þeim möguleika opnum að Ísland yrði umsóknarríki á ný. Bendir margt til þess að hlutaðeigandi aðilum hafi þótt æskilegt að viðhalda um sinn „jákvæðri tvíræðni“ þegar viðræðurnar voru stöðvaðar.
Tvíræðnin sem endurspeglast í bréfaskiptum Íslands og ESB er í engu samræmi við pólitískar yfirlýsingar íslenskra ráðamanna, hvorki þá né síðar. Hvernig það gat gerst hefur enn ekki verið útskýrt.“
Ofangreint vekur því upp spurningar um hvort Guðlaugur hafi lesið skýrsludrögin í september árið 2018 og gleymt þeim samstundis og ekki mundað eftir þeim fyrr en Helgi Seljan bar þau undir hann í gær, eða hvort hann hafi talað gegn betri vitund í pontu Alþingis í apríl 2019 þegar þingmaður Miðflokksins bar undir hann þá afstöðu ESB að aðildarumsókn Íslands væri enn gild.