Það eru allar líkur á að Lucas Paqueta sé ekki á leið í langt leikbann frá fótbolta eins og búist var við um tíma.
Paqueta hefur verið undir rannsókn undanfarið ár eða svo en hann var ásakaður um veðmálasvindl.
Brassinn var til að mynda ásakaður um að fá viljandi gult spjald í ákveðnum leikjum West Ham sem spilar í efstu deild Englands.
Times greinir nú frá því að allar líkur séu á því að Paqueta verði sýknaður og en engin sönnunargögn hafa fundist um einhvers konar svindl eða hagræðingu.
Paqueta var ákærður af enska knattspyrnusambandinu í maí í fyrra en hann var ásakaður um að fá einmitt viljandi gult spjald í leikjum gegn Leicester, Aston Villa, Leeds og Bournemouth.
Enska knattspyrnusambandið þarf líklega að borga allan lögfræðikostnað sem gæti endað í allt að einni milljón punda sem gera um 163 milljónir króna.