fbpx
Sunnudagur 06.júlí 2025
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Dauðir skipaðir í áfengisvarnarnefnd – þingmaður Miðflokksins spaugari aftur í ættir

Svarthöfði
Sunnudaginn 6. júlí 2025 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það hefur ekki farið fram hjá Svarthöfða að nýr þingmaður Miðflokksins hefur stigið fram á sviðið og gert sig gildandi svo um munar í því að tefja og þvælast fyrir málum ríkisstjórnarinnar.

Ingibjörg Davíðsdóttir, fyrrverandi sendiherra, hefur að segja má komið, séð og sigrað á hinu háa Alþingi með lygilega hnyttnum og markvissum ræðum gegn veiðigjaldafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Þessi eggskarpa gagnrýni á frumvarpið hefði þó mögulega farið fram hjá öllum þorra almennings ef Illugi Jökulsson hefði ekki gert sér ferð niður á Alþingi eina sumarnóttina og hlustað á málþófið og skráð niður hluta einnar ræðu Ingibjargar, sennilega þeirrar 47. í annarri umræðu, og birt á Facebook.

Mælskusnilldin, óstöðvandi streymi ódauðlegra athugasemda og snilldarsetninga vakti vitaskuld umsvifalaust athygli og aðdáun netverja:

Já, frú forseti … mig langar líka að þakka háttvirtum þingmanni Jóni Pétri Zimsen fyrir afar skemmtilega ræðu hérna áðan, upplýsandi og hérna, hvað segir maður … inspírerandi … afsakaðu slettuna, frú forseti … eee … það er líka rétt, núna þegar klukkan er að ganga fimm, þá hefur heldur ótæpilega verið drukkið af drykknum Collab, sem heldur okkur öllum vakandi hérna og líflegum og hressum … eee … og auðvitað tengist sá drykkur sjávarútvegnum með mjög beinum hætti … eee … en eins og háttvirtur þingmaður Jón Pétur Zimsen … eee … greindi frá, eða hann er, hann kann að segja góðar sögur, og ég minnist hans nú hérna fyrr á þessum þingvetri, fyrir að, þá var hann að segja ansi skemmtilegar svona tappasögur, áföstum töppum, sem að gerðu það að verkum að það rústaði heilu fjölskylduboðunum, og … það var mikið vesin. Síðan hérna var hann að segja góða sögu áðan af kollega sem að var að opna Collab og skvettist yfir og þurfti að yfirgefa svæðið og skipta um föt og svona … en hérna … maður á aldrei að láta góða sögu líða fyrir sannleikann, getum við ekki verið öll sammála um það? (Skellihlær.) En … í fyrri … eða sem sagt síðustu ræðu minni var ég að fara yfir umsögn … eee … eee … hvaða umsögn var ég að fara yfir? … Ég var að fara yfir umsögn Dalvíkurbyggðar, og mig langar að halda áfram þar sem frá var horfið … ef ég skyldi nú finna það … já! … eee, með leyfi forseta …“

Hver getur mælt því í mót að þarna tali stórmenni, mælskutröll, rökhugsunin og flæðið aðdáunarvert, já, og húmoristi fram í fingurgóma.

Það rifjaðist upp fyrir Svarthöfða að Ingibjörg Davíðsdóttir er kynslóð fram af kynslóð komin af andans stórmennum og miklum húmoristum. Ingibjörg er dóttir Davíðs Aðalsteinssonar á Arnbjargarlæk, fyrrum þingmanns Framsóknarflokksins. Langafi hennar var Davíð Þorsteinsson, bóndi á Arnbjargarlæk. Hann var allt í öllu í Þverárhlíðarhreppi í Borgarfirði, eða það sem Magnús Torfason, þáverandi sýslumaður, kallaði „þrístjóri“. Davíð Þorsteinsson var í senn hreppstjóri Þverárhlíðarhrepps, oddviti og sýslunefndarmaður að auki. Mikill samvinnumaður og formaður stjórnar Kaupfélags Borgfirðinga í tíu ár. En hann var Sjálfstæðismaður frá stofnun flokksins 1929 og til æviloka, reyndi meira að segja að komast á þing fyrir Íhaldið.

Svarthöfði þurfti aðeins að leggjast í rannsóknir en komst eftir eftirgrennslan að því að minnið hafði ekki svikið hann. Þannig var að skömmu fyrir Seinna stríð samþykkti Alþingi að í hverjum hreppi landsins skyldi vera áfengisvarnarnefnd. Formaður skyldi tilnefndur af ráðuneyti en tveir nefndarmenn af hreppsnefnd.

Á þessum tíma var Davíð á Arnbjargarlæk bæði hreppstjóri og oddviti í Þverárhlíðarhreppi. Þegar formannstilnefning í áfengisvarnarnefndinni barst frá ráðuneytinu vildi svo slysalega til að kandídatinn var var löngu látinn maður.

Eftir því sem Svarthöfði kemst næst gerði Davíð Þorsteinsson, langafi Ingibjargar Davíðsdóttur, það að tillögu sinni að hreppsnefndin skyldi þá skipa tvo látna menn af sinni hálfu í nefndina til að passa upp á að gott samband gæti nást milli allra nefndarmanna svo fundarfært yrði. Varð það úr.

Í ráðuneytinu var þessu útspili hreppsnefndar Þverárhlíðarhrepps ekki vel tekið og þótti það gefa til kynna að hreppsnefndin hefði ekki fullan skilning á alvöru áfengisvandamálsins hér á landi og væri með hreinan fíflagang í málinu.

Svarthöfði dregur hins vegar þá ályktun af þessu útspili nefndarinnar, fyrir forgöngu langafa Ingibjargar Davíðsdóttur, að hún eigi ekki langt að sækja spaugsemina og skarpskyggnina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Málþóf og málþæfarar

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Málþóf og málþæfarar
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Einföldum lífið!

Thomas Möller skrifar: Einföldum lífið!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Fólkið sem notar internetið í vinnunni

Nína Richter skrifar: Fólkið sem notar internetið í vinnunni
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Enn eru fornmenn á ferð

Enn eru fornmenn á ferð
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þáttaskil í Evrópuumræðu

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þáttaskil í Evrópuumræðu
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Thomas Möller skrifar: Hvað mun sagan segja?

Thomas Möller skrifar: Hvað mun sagan segja?
EyjanFastir pennar
06.06.2025

Svarthöfði skrifar: Skrítin skilaboð frá seðlabankastjóra á óvissutímum

Svarthöfði skrifar: Skrítin skilaboð frá seðlabankastjóra á óvissutímum
EyjanFastir pennar
06.06.2025

Nína Richter skrifar: Ég er ekki í nestiskulnun

Nína Richter skrifar: Ég er ekki í nestiskulnun