EM hefst í dag og mætir íslenska kvennalandsliðinu því finnska í fyrsta leik klukkan 16 að íslenskum tíma. Það var hitað upp fyrir leikinn í hlaðvarpi 433.is um EM, þar sem íþróttafréttamaðurinn Aron Guðmundsson hjá Sýn var gestur.
„Maður horfir á þennan riðil og þetta er 50/50 í öllum leikjum sýnist mér. Þetta er mjög jafn riðill og maður horfir á þetta sem stórt tækifæri fyrir þær til að stimpla sig inn af krafti í fyrsta leik á móti Finnlandi og tryggja sig svo upp úr þessum riðli,“ sagði hann.
Noregur og Sviss eru einnig í riðli Íslands, en á pappír er finnska liðið það slakasta og því afar mikilvægt að vinna leik dagsins.
„Það er kannski dramatískt að segja það en ef við fáum eitthvað annað en þrjú stig þarna erum við með bakið upp við vegg,“ sagði þáttastjórnandinn Helgi Fannar Sigurðsson og Aron tók undir.
„Sér í lagi ef það er tap, þá verður það helvíti erfitt. En við gerum kröfu á sigur á morgun, ég er þokkalega bjartsýnn fyrir þessum leik.“