Hvort sem fólk er þeirrar skoðunar að málþóf eigi sér nú stað á Alþingi eða ekki leikur mörgum forvitni á að vita hver ræðukóngurinn er á Alþingi á yfirstandandi þingi. Eyjunni er því ljúft og skylt að taka þær upplýsingar saman og miðla til lesenda. Keppnin er hörð í ár og munar litlu á efstu sætunum.
Þriðja sætið hneppir Vilhjálmur Árnason úr Sjálfstæðisflokknum. Vilhjálmur hefur meðal annars flutt 120 ræður og veitt 220 andsvör. Allt í allt hefur hann talað í 1178,27 mínútur eða í 19,6 klukkustundir.
Það kemur kannski ýmsum á óvart en Miðflokksmaðurinn Bergþór Ólason er ekki ræðukóngur heldur hneppir 2. sætið fyrir að tala í 1280,04 mínútur eða 21,3 klukkustundir. Þetta afrekaði Bergþór meðal annars í 187 ræðum og 248 andsvörum.
Ræðukóngur Alþingis er í raun drottning að þessu sinni, en Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks hefur talað í 1300,14 mínútur eða 21,7 klukkustundir. Þetta afrekaði hún meðal annars með 165 ræðum og 284 andsvörum.
Hér má sjá topp 10 listann yfir málglöðustu þingmennina á yfirstandandi þingi:
Þessir þingmenn töluðu samanlagt í 182,4 klukkustundir. Af listanum mætti ráða að Sjálfstæðisflokkurinn hafi sigurinn í ræðukeppni flokkanna, en það er þó ekki svo. Þingmenn hinna stjórnarandstöðuflokkanna tala nefnilega meira að meðaltali eins og sýnt verður hér að neðan.
Þingmenn Miðflokksins
Alls: 120,7 klst, eða um 15 klst á þingmann að meðaltali.
Þingmenn Sjálfstæðisflokks
Alls: 166,3 klst eða tæpar 12 klst á hvern þingmann að meðaltali.
Þingmenn Framsóknar
Alls: 62 klst eða um 12,2 klst á þingmann að meðaltali.
Sé fólk forvitið um stjórnarflokkana skal það fylgja sögunni hvað þeir hafa masað mikið á yfirstandandi þingi. Ræðukóngur stjórnarflokkanna er Sigurjón Þórðarson úr Flokki fólksins með 6,9 klst, en fast á hæla hans kemur flokkssystir hans, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir með 6,6 klst. Viðreisnarmaðurinn Sigmar Guðmundsson og Jóhann Páll Jóhannsson úr Samfylkingunni koma svo næstir með 5,1 klst.
Þingmenn Samfylkingarinnar hafa talað í um 44,3 klst, þingmenn Viðreisnar hafa talað í 34,9 klst og þingmenn Flokks fólksins í 25,8 klst.
*Ofangreint byggir á stöðunni eins og hún var klukkan 14:00 í dag.