Lögreglan á Tenerife hefur hafið morðrannsókn eftir að lík af karlmanni og konu fannst í íbúð í ferðmannahverfi á Adeje-ströndinni í Tenerife. Canarian Weekly greinir frá og segir að ummerki um ofbeldi séu á vettvangi.
Líkfundurinn varð í eftirmiðdaginn á föstudag í Caledonia Park í San Eugenio Alto. Um er að ræða svæði sem er vinsælt meðal ferðamanna. Adeje-ströndin er vinsæll áfangastaður meðal Íslendinga.
Bæði líkin fundust í sama herbergi í íbúðinni og segir að allt bendi til þess að ofbeldi hafi verið beitt.
Enn hefur enginn verið handtekinn vegna málsins og leynd hvílir yfir lögreglurannsókninni. Vísbendingar eru um að um hefndarglæp hafi verið að ræða en ekkert er staðfest í þeim efnum.