Í Ivano-Frankivs, í suðvesturhluta Úkraínu, bjuggu tveir unglingar til tvær sprengjur. Önnur sprakk í íbúðinni, þar sem þeir bjuggu þær til, en hin sprakk þegar þeir reyndu að koma henni fyrir í bænum.
Annar unglingurinn lést og hinn missti annan fótinn. Málum af þessu tagi fer fjölgandi að sögn úkraínsku leyniþjónustunnar SBU og margra úkraínskra samtaka. Segja þau að Rússar lokki sífellt fleiri úkraínsk börn til liðs við sig.
„Þeir komast í samband við börnin á samfélagsmiðlum. Þeir byrja á að láta þau fá einfalt verkefni,“ segir Iryna Pusjtjuk, aðgerðarstjóri hjá samtökunum Dignity Online, að sögn Jótlandspóstsins.
Hún sagði að síðan stigmagnist verkefnin. Rússarnir hóti börnunum, blekki þau og lokki með peningum til að taka að sér ýmis verkefni. Verkefnin geta verið allt frá því að vera nokkuð meinlaus upp í að snúast um njósnir og lífshættuleg afbrot eða um veggjakrot og skemmdarverk.
Pusjtjuk nefndi einnig pilt sem var við að sogast í þjónustu Rússa. Hann var sendur í búð til að taka myndir af vörunum í hillunum. Þegar hann kom heim, sendu þeir honum smávegis pening og spurðu síðan hvort hann gæti farið og tekið myndir af opinberum byggingum. Pilturinn var hins vegar vel á verði og áttaði sig á að hér var eitthvað óeðlilegt á seyði og gerði foreldrum sínum viðvart.
Málið frá Ivano-Frankivsk, þar sem annar pilturinn lést og annar missti fót, sýnir vel hversu fagmannlega Rússar fara að þessu. Úkraínska lögreglan segir piltarnir, 15 og 17 ára, hafi fundið vinnu í gegnum skilaboðaþjónustuna Telegram. Þeir fengu peninga til að leigja íbúð nærri lestarstöðinni, leiðbeiningar og loforð um meiri peninga. SBU segir að sprengjurnar, sem þeir bjuggu til, hafi verið útbúnar sem hitabrúsar og hafi verið stýrt með fjarstýringum.
Piltarnir höfðu virkjað sprengjurnar, gert þær klárar til að vera sprengdar, en SBU segir að rússnesku útsendararnir hafi sprengt aðra þeirra þegar piltarnir voru að flytja hana á milli staða.
Kyiv Independent skýrði frá því fyrr á árinu að 22% af öllum þeim Úkraínubúum, sem Rússar ráða til starfa, séu börn.