Maðurinn ræddi við NBC Miami og sagðist hafa hitt konuna á bar í byrjun maí. Þau fóru síðan saman á annan bar áður en þau fóru heim til mannsins til að fá sér drykk.
Þegar hann vaknaði næsta morgun, var hann aleinn, mundi ekki hvað hafði gerst eftir að þau fengu sér drykk og þess utan hafði 3.000 dollurum í reiðufé verið stolið frá honum og Rolex úrinu hans.
„Þetta er skelfileg tilfinning því þetta getur í raun komið fyrir hvern sem er. Að vera gerður svo ósjálfbjarga og að einhver snerti meðvitundarlausan líkamann og gramsi í hlutunum þínum, það er skelfileg tilhugsun,“ sagði maðurinn og bætti við: „Hún hafði þetta í hyggju allt kvöldið. Alveg frá því að hún sá mig. Þetta er bara mannvonska.“
Lögreglan vildi ekki segja neitt beint um þetta mál en talsmaður hennar sagði í samtali við People að nokkrar handtökur hafi átt sér stað að undanförnu í tengslum við mál af þessu tagi þar sem konur virðast hafa valið karlmenn til að byrla ólyfjan og stela síðan frá þeim.