Í byrjun árs 1980 byrjaði Dorothy Jane Scott, 32 ára einstæð móðir frá Anaheim í Kaliforníu, að fá óþægileg símtöl á vinnustað sinn. Á hinni línunni var maður, sem hún þekkti ekki, sem byrjaði á því að tjá henni ást sína.
Fljótlega byrjaði hann síðan að hóta því að skaða Scott ef ást hans yrði ekki endurgoldin. Fjórum mánuðum síðar hvarf Dorothy Jane Scott með dularfullum hætti og fundust líkamsleifar hennar ekki fyrr en fjórum árum síðar. Morðinginn hefur hins vegar aldrei fundist.
Dorothy bjó ein með fjögurra ára syni sínum og frænku. Hún var þekkt fyrir að vera róleg og heimakær kona sem hafði lítinn áhuga á skemmtanalífinu og forðaðist áfengi og önnur vímuefni í hvítvetna. Hún vann sem ritari í tveimur verslunum í Anaheim sem seldu meðal annars nýstárlegar tískuvörur eins og lava-lampa og aðra skrautmuni.
Þegar hin óhugnanlegu símtöl hófust varð Scott sérstaklega áhyggjufull yfir því að sá ástleitni virtist vita mikið um daglegt líf hennar. Þegar Scott gaf lítið fyrir áhuga hans fór hann að lýsa því í smáatriðum hvers konar ofbeldi hann hygðist beita hana. Meðal annars sagðist hann ætla að drepa hana og brytja hana niður í örsmáa bita.
Eins og gefur að skilja var Dorothy farin að óttast um öryggi sitt. Hún byrjaði að læra karate til að geta mögulega varið sig auk þess sem hún íhugaði það alvarlega að kaupa sér skammbyssu. Til þess kom þó aldrei.
Þann 28. maí 1980 varð samstarfsmaður fyrir því að hættuleg könguló, svokölluð svört ekkja, beit hann og bauðst Dorothy til þess að skutla honum á spítala til aðhlynningar. Eftir heimsóknina fór hún út að sækja bílinn sinn og ætlaði að koma keyrandi upp að inngangi spítalans. Samstarfsmaðurinn sá hins vegar bílinn reykspóla í burtu en sá ekki hver sat undir stýri. Þetta var í síðasta skipti sem sást til Dorothy.
Rúmum sólarhring síðar fannst bíll Dorothy í ljósum logum í húsasundi um 16 kílómetrum frá sjúkrahúsinu en ekki sást tangur né tetur af henni né hugsanlegum misgjörðarmanni.
Þrátt fyrir umfangsmikla leit að Dorothy fann lögreglan ekkert haldbært. Rúmri viku síðar fór móðir Dorothy að fá hrollvekjandi símtöl. Á hinum enda línunnar var maður sem sagðist hafa myrt dóttur hennar og gaf ýmsar upplýsingar um hana sem aðeins einhver sem hefði verið með henni daginn örlagaríka gat vitað. Símtölin voru stutt og bárust iðulega á miðvikudögum þegar móðir Dorothy var ein heima hjá sér. Lögregla reyndi að hljóðrita og rekja símtölin en hinn meinti morðingi hafði vit á því að slíta símtalinu áður en það var hægt.
Eftir nokkrar vikur hættu símtölin skyndilega að berast.
Málið virtist vera að fjara út en fjórum árum síðar fundust líkamsleifar Dorothy fyrir tilviljun, grafnar við vegkant nærri Anaheim. Þær voru illa farnar og ómögulegt var að greina dánarorsök.
Í kjölfar frétta af líkfundinum hófust hin hrollvekjandi símtöl aftur til móður Dorothy sem eðli málsins samkvæmt reyndist henni mjög þungbært.
Aftur hafði hinn meinti morðingi varann á og gætti þess að ekki var hægt að rekja símtölin.
Enn þann dag í dag er morðið á Dorothy Jane Scott óleyst og lögreglan hefur aldrei haft neinn grunaðan í málinu.