fbpx
Þriðjudagur 13.maí 2025
Fréttir

Viðurkennir að það hafi verið rangt af þeim að njósna um Vilhjálm og félaga

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 13. maí 2025 14:30

Jón Óttar Ólafsson. Skjáskot/Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Óttar Ólafsson fyrrum lögreglumaður viðurkennir að það hafi verið rangt af honum og þáverandi samstarfsmanni hans að standa árið 2012 fyrir víðtækum persónunjósnum gegn Vilhjálmi Bjarnasyni, sem varð síðar þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og fleiri einstaklingum sem á þeim tíma stóðu fyrir hópmálsókn gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni, athafnamanni sem greiddi fyrir njósnirnar. Jón Óttar segir einnig að á þessum tíma hafi erlendir einkaspæjarar sem margir hafi verið fyrrum njósnarar unnið hér á landi í málum sem tengdust eftirmálum hrunsins 2008.

Jón Óttar ræðir málið frá ýmsum hliðum í viðtali við Frosta Logason í þættinum Spjallið. Í viðtalinu ber hann fyrrum yfirmann sinn Ólaf Þór Hauksson, áður sérstakan saksóknara en nú héraðssaksóknara, þungum sökum. Sakar Jón Óttar Ólaf um að hafa sjálfur staðið fyrir umtöluðum gagnaleka frá embættinu til RÚV og að hafa leitt sig og þáverandi samstarfsmann hans, Guðmund Hauk Gunnarsson í gildru.

Jón Óttar stígur loks fram – Segist hafa verið leiddur í gildru

Eins og kom fyrst fram í Kveik ráku Jón Óttar og Guðmundur, sem lést 2020, saman fyrirtækið PPP en þeir höfðu starfað saman hjá embætti sérstaks saksóknara. Árið 2012 njósnaði PPP um Vilhjálm og fleiri sem stóðu í málarekstri gegn Björgólfi Thor. Jón Óttar viðurkennir í viðtalinu að þetta hafi þeir svo sannarlega ekki átt að gera. Þeir hafi þó verið í erfiðri stöðu þar sem Ólafur Þór hafi þá verið búinn að leggja fram kæru gegn þeim fyrir brot á trúnaðarskyldu, en síðar felldi ríkissaksóknari málið niður. Vísar Jón Óttar sömuleiðis til þess að persónuverndarlöggjöfin hafi ekki verið eins ströng þá og í dag en staða þeirra félaga á þessum tíma hafi verið slík að þeir hafi í raun verið í áfalli.

Búið að kæra

„Við sjáum ekki eiginlega fram á mikla framtíð og við einhvern veginn erum að reyna að búa okkur til einhverja stöðu og erum að vinna hluti sem við áttum að sjálfsögðu ekki að gera. Það segir sig sjálft.“

Jón Óttar segir að hann og Guðmundur hafi ekki gert neitt þessu líkt aftur:

„Ég er ekkert að afsaka það neitt. Þetta er bara eitthvað sem við áttum ekki að gera.“

Hann segir að staðan sem hann og Guðmundur hafi verið í skýri gjörðir þeirra en afsaki þær ekki:

„Það er ekkert sem afsakar þetta neitt.“

Jón Óttar segist ekki vera neitt fórnarlamb:

„Ég hef aldrei gert eitthvað sem einhver hefur ýtt mér út í.“

Erlendir spæjarar

Hann bætir því hins vegar við að á þessum tíma sem PPP stóð fyrir þessum aðgerðum hafi verið sérstakt andrúmsloft í íslensku samfélagi. Erlendir rannsóknaraðilar með fortíð í leyniþjónustustofnunum Bretlands hafi komið til landsins vegna mála sem tengdust eftirmálum hrunsins:

„Þá eru hérna alls konar einhverjir útlenskir einkaspæjarar.“

Slíkir aðilar hafi unnið fyrir slitastjórn Glitnis:

„Maður gat ekki þverfótað fyrir þessum mönnum í bænum. Þetta voru allt einhverjir fyrrverandi MI-5 og MI-6 njósnarar og einhverjir svoleiðis karlar. Þeir voru að yfirheyra starfsmenn Glitnis fyrir hönd slitastjórnar.“

Mikið af peningum hafi verið í umferð og ástandið skrýtið.

Afsökun

Aðspurður um hvað hann myndi segja við Vilhjálm og aðra sem PPP njósnaði um segir Jón Óttar:

„Ég myndi bara biðja þá afsökunar. Það er ekkert flókið … Þetta bara voru mistök.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt