Kári Stefánsson, fyrrverandi forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir í samtali við Vísi að hann hafi verið rekinn fyrirvaralaust úr starfi. Það vakti athygli þegar tilkynnt var í morgun að Kári væri hættur hjá stórfyrirtækinu sem hann stofnaði og að Unnur Þorsteinsdóttir og Patrik Sulem væru teknir við sem nýir framkvæmdastjórar. Fréttatilkynning var send frá almannatenglafyrirtæki en ekki frá fyrirtækinu sjálfu. Það vakti sömuleiðis athygli að ekkert var haft eftir Kára í fréttatilkynningunni þó svo slík sé venjan við stór kaflaskipti sem þessi.
Nú liggur fyrir að Kári hætti ekki að eigin ósk en hann hafði áður heitið því að vinna til síns dánardags. Kári segir í samtali við Vísi að hann geti ekki tjáð sig neitt að viti um málið sem stendur en ætlar að gera það eftir helgi.
Yfirmaður samskiptamála hjá Amgen, eiganda Íslenskrar erfðagreiningar, segir að fyrirtækið hafi tekið stefnumótandi ákvörðun um að skipta um forystu til að samræma betur við alþjóðlega rannsóknar- og þróunarstarfsemi.