Íslenska þjóðfylkingin mun bjóða fram lista í borgarstjórnarkosningunum í vor og er í viðræðum við hugsanlegan oddvita. Helgi Helgason varaformaður vill aðeins segja að um öfluga persónu sé að ræða. Helsta baráttumál flokksins kemur fæstum á óvart; að draga til baka lóðaúthlutun undir mosku og breytingartillögur um bænahús múslima í Öskjuhlíð, þar sem til stendur að reisa bænaturn og farfuglaheimili að sögn Helga. Ef Íslenska þjóðfylkingin kemst til valda verður horfið frá hugmyndum um þéttingu byggðar og borgarlínu. Komið verður upp verkamannabústaðakerfi og lóðum úthlutað í úthverfum borgarinnar. Eitt af helstu stefnumálum vinstri meirihlutans hefur verið að styðja við bakið á réttindabaráttu samkynhneigðra. Það er málefni sem Íslenska þjóðfylkingin setur sig ekki upp á móti, hvorki gleðigöngunni né öðru. „Margir innan okkar vébanda eru samkynhneigðir og einn af okkar ötulustu stuðningsmönnum er yfirlýstur hommi.“ Á hann þar við Baldur Bjarnason, þekktan innhringjanda á Útvarp Sögu.