Þann 23. nóvember árið 1953 birtist forsíðufrétt í Mánudagsblaðinu um að kynvilla fyndist hér á landi. Þar kom fram að vitað væri um kynvillinga sem störfuðu hjá tiltekinni ríkisstofnun. Tekið var fram að greinin væri ekki rituð til að ákæra neinn mann eða stofnun. „Til þeirra hefur sézt og um þá er vitað.“ Blaðamaður þóttist stíga varlega til jarðar því að kynvilla væri mál sem varla mætti festa á prent. Vandamálið taldi hann að fullorðnir menn tældu veikgeðja unglinga til maka og gætu unglingarnir því smitast af þessum „sjúkdómi“ og orðið „homosexuals.“ Þetta afbrigði kynlífs væri ekki viðurkennt af samfélaginu, kynvillingar væru vandræðamenn sem móðguðu samstarfsfólk sitt. Greininni lauk á orðunum: „Farið varlega – elskurnar.“