

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýndi Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra fyrir orð sem hann lét falla á þingi þegar hann talaði um „hinar hagsýnu húsmæður“. Ráðherrann baðst síðan afsökunar á orðum sínum. Ekki eru menn á eitt sáttir um nauðsyn þess. Ekkert er athugavert við að vera hagsýn húsmóðir, þvert á móti er það lofsvert – en þó ekki í orðabók Vinstri grænna.
Kvennalistakonur áttu til að tala um hagsýnar húsmæður. Í grein í Vísi árið 1983 sagði Sigríður H. Sveinsdóttir: „Kvennalistinn leggur til forsjálni og fyrirhyggju hinnar hagsýnu húsmóður.“ Þingmaður Kvennalistans, Kristín Halldórsdóttir, sagði í almennum stjórnmálaumræðum árið 1987: „Sólin hækkar óðum á lofti og hagsýnar húsmæður fá hreingerningarfiðring … Tími vorhreingerninga er fram undan.“ Það var ekki tilviljun að Kristín talaði um hreingerningar því í framhaldinu kom fram að hún taldi hreingerninga þörf á stjórnarheimilinu, þar þyrfti að viðra almennilega út, hleypa út vindlareyknum og leyfa nýrri lífssýn að blómstra þar í fersku andrúmslofti.