HK vann hádramatískan sigur á Þrótti í fyrri leik liðanna í undanúrslitum umspils Lengjudeildarinnar í kvöld. Spilað var í Kópavogi.
Ekkert var skorað í fyrri hálfleik en snemma í þeim seinni komust heimamenn yfir þegar Eiríkur Þorsteinsson Blönda varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark.
Við tóku ótrúlegar rúmar tíu mínútur þar sem Bart Kooistra kom HK í 2-0, Viktor Andri Hafþórsson og Brynjar Gautur Harðarson jöfnuðu fyrir Þrótt og Liam Daði Jeffs kom þeim yfir.
Það liðu svo aðeins nokkrar mínútur til viðbótar áður en Karl Ágúst Karlsson jafnaði fyrir HK og kom hann þeim svo yfir á ný undir lok leiks. Lokatölur 4-3.
Það er allt opið fyrir seinni leik liðanna í Laugardalnum á sunnudag. Sigurvegarinn mætir Keflavík eða Njarðvík í úrslitaleik á Laugardalsvelli um sæti í Bestu deildinni. Staðan í hinu einvíginu er 2-1 fyrir Njarðvík eftir leik kvöldsins í Keflavík.