Haukur Guðberg Einarsson hefur stigið til hliðar sem formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur eftir að trúnaðarbrestur kom upp í stjórn deildarinnar. Víkurfréttir segja frá. Óstaðfestar heimildir miðilsins herma að samið hafi verið við leikmann án vitundar formanns og Haukur ákvað því að stíga til hliðar.
„Ég var búinn að ákveða að stíga til hliðar í haust svo þetta skiptir ekki öllu máli. Þegar ég tók hlutverkið að mér á sínum tíma og ræddi við fyrrum formann, Jónas Þórhallsson, þá sagði hann mér að gera alla hluti með hjartanu því þannig gæti ég verið sáttur við allar þær ákvarðanir sem ég myndi taka. Þessi ákvörðun er tekin með hjartanu, ég hefði ekki verið sáttur við mig ef ég hefði ekki fylgt hjartanu.
Þetta er búið að vera gríðarlegt álag undanfarin ár og ég stíg sáttur frá borði þó svo að ég hefði viljað klára þetta tímabil. Ég ætlaði mér að koma liðinu heim og það tókst, ég var búinn að finna minn eftirmann og ætlaði að koma honum inn í hlutina og mun áfram verða boðinn og búinn í það en ég taldi mig ekki getað unnið áfram sem formaður ef hjartað sagði mér annað,“ segir Haukur við Víkurfréttir.