Brynjar Björn Gunnarsson var gestur Chess After Dark í vikunni en þessi vinsælli hlaðvarpsþáttur hefur vakið mikla athygli á síðustu árum.
Birkir Karl Sigurðsson og Leifur Þorsteinsson eru umsjónarmenn þáttarins og fengu fyrrum atvinnumanninn Brynjar í gott spjall sem er vel rúmlega tveir klukkutímar.
Brynjar hefur gert það gott sem þjálfari eftir að ferlinum lauk en hann var hjá HK frá 2018 til 2022 og kom liðinu upp í efstu deild á sínu fyrsta tímabili.
Brynjar hefur vissulega ekki starfað sem aðalþjálfari í dágóðan tíma en hann var síðast við stjórnvölin hjá Örgryte í efstu deild í Svíþjóð.
Hann ræddi aðeins HK ævintýrið í samtali við CAD og hafði lítið annað en góða hluti að segja um félagið.
,,Það var mjög sterkt og við fengum líka bara þrettán mörk á okkur. Það má ekki gleyma því,“ sagði Brynjar.
,,Ég tek við skemmtilegum hóp, þarna var gríðarlega góður kjarni af leikmönnum á góðum aldri og enginn gert einhverja stóra hluti í efstu deild. Á þessum tímapunkti voru þeir fínir 1. deildar leikmenn. Maður setti hjarta og sál í þetta eins og maður gerir alltaf.“
Brynjar heldur áfram og ræddi svo stuttlega um þjálfarateymið sem hann vann með og nefndi nokkra ágæta aðila.
Hjörvar Hafliðason eða Dr. Football eins og margir þekkja hann sem var fenginn í teymið og fékk í eitt sinn á baukinn að sögn Brynjars sem fór auðvitað yfir málin á léttu nótunum.
,,Ég náði í Viktor Bjarka sem leikmann og aðstoðarþjálfara þetta fyrsta tímabil, hann var frábær og Hjörvar var með okkur í leikjum og í 1-2 leikjum á viku. Þetta er hans innganga í Dr. Football ætla ég að segja!“
,,Ég þurfti einu sinni að segja honum að setjast og grjóthalda kjafti, það var bara fyrir hann því við vorum að spila gegn Þór á Akureyri og þú vilt ekkert lenda í þeim. Ég var bara að bjarga honum. Hann þurfti að setjast og hafa sig hægan.“