
Það er ekki bara áhugi á Mohamed Salah frá Sádi-Arabíu, fari hann frá Liverpool, heldur Bandaríkjunum einnig.
Salah er nú sterklega orðaður frá Liverpool, hvar hann hefur verið besti leikmaðurinn í áraraðir. Er hann kominn á bekkinn undir stjórn Arne Slot og baunaði hann hressilega á stjórann og kvaðst ósáttur með stöðu sína í viðtali eftir jafnteflið við Leeds um helgina.
Salah gaf í skyn að hans síðasti leikur á Anfield gæti komið gegn Brighton um næstu helgi. Eftir það fer hann í Afríkukeppnina með Egyptum og sagðist hann allt eins eiga von á að fréttir yrðu af framtíð hans á meðan mótinu stendur.
Salah hefur lengi verið orðaður við Sádí en það er þó áhugi á þessum frábæra leikmanni víðar. Blaðamaðurinn Ben Jacobs segir til að mynda frá því að San Diego FC í Bandaríkjunum hafi augastað á kantmanninum og gæti reynt við hann í janúar.
San Diego gerði flotta hluti sem nýjasta lið MLS-deildarinnar á þessu ári. Fór það alla leið í úrslitaleik Vestur-deildarinnar, þar sem það tapaði gegn Vancouver Whitecaps, sem beið svo lægri hlut gegn Lionel Messi og félögum í Inter Miami í sjálfum úrslitaleik MLS um helgina.